Fyrir áramót var ég bjartsýn. Í takt við mikla opinbera umfjöllun, vitundarvakningu og orð stjórnmálamanna var ég sannfærð um að árið 2019 yrði öflugt hafrannsóknaár á Íslandi. Hafið er ein mikilvægasta auðlind okkar Íslendinga en tekur nú tiltölulega hröðum breytingum með súrnun sjávar og hlýnun og aukinni plastmengun. Ég var í hópi þeirra sem fyrir aðeins nokkrum vikum trúðu því að 2019 yrði árið þar sem loks yrði hægt að efla rannsóknir á hafinu með það að markmiði að stórauka þekkingu á vistkerfi þess og mögulegum áhrifum stórra umhverfisbreytinga. Bjartsýni fyrir árið 2019 var, að ég held, réttlætanleg. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar má lesa setningarnar „Hafrannsóknir gegna lykilhlutverki fyrir sjálfbæra auðlindanýtingu og þær þarf að efla“ og „Þannig á Ísland að efla rannsóknir á súrnun sjávar í samráði við vísindasamfélagið og sjávarútveginn“. Árið 2019 tekur Ísland við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og formennsku í Norðurheimskautsráðinu. Á báðum vettvöngum hefur Ísland lýst yfir áætlun um að leggja ríka áherslu á málefni hafsins.

Í stað þess að þessar áherslur komi fram í ráðstöfun ríkisstjórnarinnar á opinberum fjármunum er gerð stórkostleg niðurskurðarkrafa á Hafrannsóknastofnun. Sú krafa þýðir m.a. að leggja þarf öðru af tveimur rannsóknarskipum okkar Íslendinga og segja upp á milli tuttugu og þrjátíu starfsmönnum. Horfur í hafrannsóknum á Íslandi næstu árin, sem í lok árs 2018 virtust góðar, eru þess í stað orðnar afar slæmar í upphafi árs 2019. Fögur fyrirheit og yfirlýsingar, bæði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og í alþjóðlegu samstarfi virðast nú marklaus.

Við blasir 300 milljóna niðurskurður til Hafrannsóknastofnunar á árinu. Ljóst er þetta mun hafa alvarleg áhrif á alla starfsemi stofnunarinnar. Skorið verður niður í rannsóknum og vöktun á nytjastofnum en niðurskurðurinn verður enn meiri þegar kemur að rannsóknum sem ekki flokkast beinlínis undir mat á fiskistofnum eða tengjast beinni fiskveiðiráðgjöf. Vandséð er að hægt verði að sinna ýmsum mikilvægum rannsóknum sem núverandi ríkisstjórn hefur sjálf lagt áherslu á að þörf sé fyrir. Ljóst er að ýmsar fyrirhugaðar rannsóknir á vistkerfum sjávar, áhrifum súrnunar sjávar, hlýnunar sjávar og plastmengunar á lífríki í sjó verða settar á ís eða lagðar af.

Eðlilega má spyrja, hvers virði eru orð og yfirlýsingar stjórnvalda?