Í Bakþönkum Fréttablaðsins þann 25. október fer Þórarinn Þórarinsson mikinn og fjallar um fólk sem trúir að Satan búi í Brussel og að helstu og elstu „banda- og nágrannaþjóðir okkar sitji á svikráðum við Íslendinga“. Af samhenginu má ráða að þetta fólk sé vitgrannt og heimskt og í þann veginn að drukkna í „Nóaflóði ranghugmynda“. Ljóst er að vísað er í þann hóp fólks sem lítur svo á að best fari á að Íslandi sé stjórnað af fólki sem sækir umboð sitt til Íslendinga, en ekki einhverra annarra, jafnvel þótt þeir séu vinaþjóðir og ekki Satan.

Allur þorri þeirra sem aðhyllast fullveldi Íslands hefur litla skoðun á því hvort Satan búi í Brussel og líklega líta flestir þeirra svo á að margar af helstu vinaþjóðum Íslendinga séu í Evrópusambandinu (sem augljóslega er vísað til) og sitji ekki á svikráðum. Sitt sýnist hverjum um hver stjórni Evrópusambandinu. Færa má rök fyrir því að þar sé lýðræði og eins má færa fyrir því rök að þar ráði hagsmunir gömlu nýlenduveldanna og stórfyrirtækja sem þeim eru handgengin og samofin. Í lýðræðislegu fyrirmyndarríki „banda- og nágrannaþjóða” munu hagsmunir heildarinnar ávallt ganga fyrir hagsmunum smáþjóðar, annað væri ólýðræðislegt. Í ríki þar sem fyrrverandi nýlenduveldi og stórfyrirtæki eru við stýrið munu þeirra hagsmunir einnig ganga framar hagsmunum smáþjóðar. Það er sama á hvorn veginn er, Ísland mun ávallt verða utangarðs og fyrr eða síðar munu menn velta því fyrir sér hvort ekki sé óþarfi og of dýrt að halda uppi samfélagi á Íslandi. Ekkert vantar upp á að um vinaþjóðir sé að ræða og vinskapurinn eflaust ekki minni en þegar rætt var, af góðum hug, að flytja Íslendinga til Jótlands á 18. öld.