Við búum í samfélagi þar sem ofbeldi er daglegt brauð kvenna og þeirra sem berjast gegn ofbeldi. Við sem látum okkur baráttuna varða búum við þann raunveruleika að vera nídd í netheimum, oftast á kommentakerfum vefmiðla á sama tíma og fólk Jesúsar sig í bak og fyrir og skilur ekkert hvers vegna börnin okkar leggja í einelti.

Þolendur sem stíga fram verða fyrir rætinni aðför frá fólki sem segist fordæma allt ofbeldi. Þetta fólk, á sama tíma og það segist fordæma ofbeldi, hótar ofbeldi. Það segir þolendur og baráttufólk eiga það skilið að verða fyrir ofbeldi og sum þeirra ganga svo langt að lýsa því í smáatriðum hvernig ætti að nauðga okkur, drepa okkur eða pynta okkur. Þetta er okkar raunveruleiki.

Fremsta víglína baráttunnar gegn kynbundnu ofbeldi er í stórum meirihluta konur, sem flestar eru líka þolendur. Margar þeirra hafa berskjaldað sig í þágu baráttunnar, helgað hana lífi sínu, eytt allri sinni orku og gjörsamlega brunnið út í hennar þágu. Öryggi baráttukvenna og þolenda er ógnað daglega, einungis fyrir það að vilja gera samfélagið betra og öruggara. Það vill svo til að sú tegund ofbeldis er einmitt það ofbeldi sem karlmenn hóta okkur þegar við erum að þylja upp staðreyndir sem þeim þykja of óþægilegar.

Fjölmiðlar keppast svo við að slá þjáningum þolenda upp í smellibeitur. Nú nýverið gengu fjölmiðlar svo langt að uppfæra fréttir á nokkurra klukkustunda fresti á einum sólarhring af þolanda ofbeldis á hættulegasta tíma ofbeldisins (þegar þolandi reynir að komast úr ofbeldissambandi), eins og um raunveruleikaþátt væri að ræða. Með þessu ýttu fjölmiðlar undir frekara netofbeldi gegn þolanda. Niðurstöður úr rannsókninni Áfallasaga kvenna sýnir að rúmlega 25% kvenna á aldrinum 18-24 ára hafa orðið fyrir opinberri aðför á netinu eða í fjölmiðlum.

Nú nýverið birtust fréttir af ungri stúlku sem reyndi að enda eigið líf eftir hrottalegt einelti af völdum skólafélaga. Fólk flykktist í kommentakerfin og rauk upp til handa og fóta, það bölvaði þessum eineltisseggjum, hrópaði að svona þyrfti að stöðva og velti fyrir sér hvar í ósköpunum börnin lærðu þessa hegðun. Þegar nánar var skoðað kom í ljós að þarna voru oftar en ekki „góðkunningjar“ baráttufólks og fólk sem níðir þolendur sem rjúfa þögnina. Fólkið sem segir að stöðva þurfi eineltið í einni athugasemd á það til að beita baráttufólk og þolendur netníði í því næsta. Fólkið sem neitar að horfast í augu við að ofbeldi þrífst í þögninni, fólkið sem hvílir í gerendameðvirkni og kúrir við sínar feðraveldishugmyndir.

Við erum aldrei öruggar

Við erum ekki öruggar á eigin heimili, við erum ekki öruggar þegar við reynum að flýja, við erum ekki öruggar þegar við segjum frá ofbeldinu og við erum ekki öruggar þegar við berjumst gegn óréttlætinu.

Tölfræðin styður þessar fullyrðingar. Tölur ríkislögreglustjóra frá janúar til september árið 2022 sýna 833 tilkynningar heimilisofbeldis, þar af voru 108 þeirra flokkaðar undir „endurtekið ógnað lífi og heilsu“. Af þessum 833 tilkynningum voru 211 þeirra ofbeldi af hendi fyrrum maka, ofbeldið hættir ekki sama hvað konur gera.

Spurning okkar til þín kæri lesandi er: hvað ert þú að gera?

Fordæmir þú í alvörunni allt ofbeldi, eða ertu partur af vandamálinu?

Eru konur í þínu nærumhverfi öruggar?

Höfundar eru stjórnarkonur í Öfgum.

Greinin er birt í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi.