Með gildistöku EES samningsins þann 1. janúar 1994 öðluðust EFTA ríkin þrjú, Noregur, Ísland og Liechtenstein aðgang að innri markaði ESB. Til að njóta þessa aðgangs þurfa bæði aðildarríki ESB og EFTA ríkin að innleiða regluverk ESB, acquis communautaire, sem tengist svokölluðu fjórfrelsi. Nokkrar undantekningar eru á þessu. Ein þeirra er sameiginleg landbúnaðarstefna ESB. Önnur er sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB. Í þessari grein verður fjallað um viðskiptasamninga Íslands og ESB um landbúnaðarvörur sem byggja á ákvæðum EES samningsins.

Landbúnaðarstefna ESB ekki hluti EES samningsins

Þar sem EES samningurinn tekur ekki til sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar verður EFTA ríkjunum ekki gert að innleiða regluverk ESB á því sviði. Um viðskipti með landbúnaðarafurðir sem og unnar afurðir er því samið sérstaklega í tvíhliða samningum milli Íslands og Noregs annars vegar og ESB hins vegar.

Með EES-samningnum voru lögð drög að auknum viðskiptum með landbúnaðarafurðir og unnin matvæli með tvennum hætti – annars vegar með 19. gr. EES samningsins og hins vegar með bókun 3 við samninginn.

Í framkvæmd hefur 19. gr. EES samningsins verið talin taka til allra óunninna landbúnaðarvara, s.s. mjólkur, osta, en undir bókun 3 falla vörur almennt teljast unnar landbúnaðarvörur, sbr. b-lið 3. mgr. 8. gr. EES samningsins. Á grundvelli þessara ákvæða hafa Ísland og ESB gert samninga um viðskipti með landbúnaðarvörur, fyrst 2007 og síðan aftur 2015 með gildistöku 2018.

Sérstakir samningar um landbúnaðarvörur

Mikilvægt er að halda því til haga að á grundvelli ofangreindra ákvæða í EES samningnum gerir ESB sérsamninga við Ísland og Noreg hvort í sínu lagi. Það er því áhugavert að skoða hvernig Noregur hefur samið við ESB um þessi atriði í samanburði við Ísland.

Í aukaskýrslu með árlegri samantekt ESB um innleiðingu „ESB-Noregs“ samningsins um viðskipti með landbúnaðarvörur frá 2019 er fjallað um stöðu samningsins og viðleitni ESB til að þróa samninginn frekar í samvinnu við Noreg (sjá https://data.consilium.europa.eu/doc/document/ST-12914-2020-ADD-1/en/pdf, bls. 154). Þar er m.a. að finna upplýsingar um samningaviðræður ESB og Noregs.

Þann 14. nóvember 2019 áttu fulltrúar ESB og Noregs fund um unnar landbúnaðarvörur sem falla m.a. undir bókun 3. Þar kynnti ESB þá ítrekuðu ósk sína að taka upp viðræður um tolla á vörur sem falla undir hana, með það markmið að auka viðskipti sem væri í anda þess að sameina markaði EES svæðisins. Norska sendinefndin hafnaði þessari beiðni og rökstuddi synjun sína með vísan til þess að „…tilgangur endurskoðunar á bókun 3 sé ekki aukið frelsi í viðskiptum heldur frekar að jafna stöðu aðila...“. Norska sendinefndin lýsti því þeirri afstöðu sinni að halda bókun 3 óbreyttri og vildi ekki taka á sig neinar skuldbindingar í átt til aukins frjálsræðis í viðskiptum með unnar landbúnaðarvörur (lesist tollalækkanir).

Af hverju ganga íslensk stjórnvöld lengra en norsk stjórnvöld?

Á fundinum var einnig rætt um þá málaleitan ESB að Noregur myndu gera samning um gagnkvæma verndun afurðaheita, svipað og Ísland gerði árið 2015, og hefur m.a. leitt til sérstaka tollkvóta fyrir osta. Fram kom að fulltrúar ESB „hvöttu norsku sendinefndina til að íhuga að taka aftur upp viðræður um viðurkenningu svo kallaðra landfræðilegra merkinga. Norska sendinefndin útskýrði að hún myndi ráðfæra sig við viðeigandi yfirvöld um möguleikann á að hefja þessar viðræður að nýju.“

Af þessu er ljóst að löndin tvö, Ísland og Noregur, hafa túlkað og unnið með misjöfnum hætti með 19. gr. EES samningsins og bókun 3 við samninginn. Er ljóst að norsk stjórnvöld hafa ekki gengið jafnlangt og íslensk stjórnvöld í samningum við ESB.

Víðtæk áhrif tollkvóta á íslenskan landbúnað

Forsvarsmenn samtaka bænda hafa ítrekað bent á hve gríðarleg breyting felst í samningnum við ESB frá árinu 2015. Ofan á tollalækkanir á kjöti og tollkvóta fyrir kjöt og osta, bættust stórauknir kvótar í báðum þessum afurðum. Þannig nema tollkvótar fyrir nautakjöt yfir 20% af heildarmarkaði. Á sama tíma hefur Noregur ekki samið um neinn slíkan kvóta á grundvelli 19. gr. Fyrir svínakjöt er tollkvóti ESB til Íslands t.d. 700 tonn en 600 tonn í Noregi sem þó er með 14,6 faldan íbúafjölda Íslands, 5,3 milljónir.

Nýjar aðstæður kalla á nýtt hagsmunamat

Á fundi EES ráðsins 18. nóvember sl. ræddi utanríkisráðherra ýmsar forsendur sem lagðar voru til grundvallar við gerð samnings milli Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur og tiltók að þær hefðu breyst frá gerð samningsins. Þannig hefði Bretland nú gengið úr ESB og sá markaðsaðgangur sem saminn var um við ESB nái því ekki lengur til Bretlands. Af hans hálfu kom ennfremur fram: „Þá skiptir líka máli að vegna áhrifa heimsfaraldursins á komu ferðamanna til Íslands hefur dregið úr eftirspurn eftir landbúnaðarvörum hér á landi. Því þarf hugsanlega að kanna hvort ástæða sé til endurskoðunar á þeim viðskiptakjörum.“

Endurskoðun samninga við ESB

Þessi orð eru tímabær og ber að fagna. Íslendingar geta sjálfir framleitt stærstan hluta þeirra matvæla sem teljast til dýraafurða og eru flutt inn. Í gjöfulustu ferðamannaárum takmarkar þó fjöldi síða á hverjum grís hve mikið beikon má tilreiða ofan í ferðamenn. Það er sjálfsagt að við nýtum landsins gæði til þessa. Það veitir dýrmæt störf. Það sem sjaldnar er haldið á lofti í þessu sambandi er að framleiðsla hér á landi fer fram með margfalt minni lyfja- og varnarefnanotkun en víðast í þeim löndum sem innfluttar búvörur koma frá. Með því að framleiða þessar afurðir sjálf, sem við getum vel, minnkum við bæði hættu á mengun af þessum völdum og drögum úr álagi á lífríki þessara landa sem notkun þessara efna veldur þar.

Höfundur er hagfræðingur.