Nú þegar verslunar­manna­helgin er að baki og fólk snýr aftur til vinnu eftir sumar­leyfi verður manni hugsað til þeirra þúsunda Ís­lendinga sem hafa misst eða eru að missa vinnuna. Á meðan síðasta efna­hags­kreppa kom við fjár­hag flestra Ís­lendinga, þó með ó­líkum hætti væri, bitnar nú­verandi kreppa mjög misilla á fólki, þó allir verði vissu­lega fyrir ó­þægindum vegna sótt­varna. Sumir finna varla fyrir efna­hags­legum á­hrifum á meðan tug­þúsundir Ís­lendinga verða fyrir miklu tekju­tapi vegna at­vinnu­missis. Ég hef á­hyggjur af því fólki.

Við þurfum að leita allra leiða til að örva at­vinnu­lífið á nýjan leik og draga úr þeim fé­lags­lega vanda sem hlýst af tekju­missi vegna at­vinnu­leysis, veikinda eða annars konar röskunar vegna heims­far­aldursins. Það þarf að hindra með öllum ráðum að ó­jöfnuður aukist í þessu á­standi og í kjöl­far þess. Þess vegna þarf að vernda vel­ferðar­kerfið, helsta öryggis­netið okkar, þegar á­fall ríður yfir. Heil­brigðis­kerfið, sem hefur verið undir sér­stöku á­lagi, verður að fá nægt rekstrar­fjár­magn til að tryggja á­fram fyrir­taks þjónustu við al­menning.

En með Sjálf­stæðis­flokkinn við stjórn­völinn er hætta á að vandinn magnist. For­maður Sjálf­stæðis­flokksins talar um í fjöl­miðlum að „ekki sé svig­rúm fyrir nýjum rekstrar­út­gjöldum“, vara­for­maður Sjálf­stæðis­flokksins gerði hag­ræðingu að um­tals­efni á síðasta Eld­hús­degi og sagði okkur „ein­fald­lega ekki hafa efni á því að reka stóru kerfin okkar með ó­breyttum hætti“. Allt orð­rétt upp úr upp­skrifta­bók hægri manna. Og vara­for­maður fjár­laga­nefndar, sem einnig er þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, bætti svo við fyrir stuttu að ó­lík­legt væri að Land­spítalinn fengi meira fé og talaði um „tæki­færi til hag­ræðingar“.

Við þekkjum allt of vel að niður­skurðar­hnífurinn er nær­tækasta verk­færi hægri manna í efna­hags­þrengingum. En það getur orðið okkur dýrt að spara okkur út úr þessari kreppu. Við þurfum að beita ríkis­sjóði og vinna okkur gegnum hana á lengri tíma; fjár­festa í heil­brigði, fé­lags­legu öryggi og af bragðs menntun, tryggja aukinn jöfnuð og búa allri þjóðinni tæki­færi til vel­sældar og hamingju til lengri tíma.