Enginn þarf að velkjast í vafa um að svonefndar blóðmerar eru beittar harðræði hér á landi, eftir að hafa horft á hryllilega meðferð á þeim á myndum sem alþjóðlegu dýraverndarsamtökin Animal Welfare Foundation gerðu nýverið opinberar. Þær voru teknar með földum myndavélum á bæjum íslenskra hrossabænda sem selja merablóð.

Málið er allt hið ógeðfelldasta, jafnt dýra­níðið sjálft, sem vanræksla opinberra stofnana og næsta augljós meðvirkni með harðneskjulegri græðginni í þessum efnum.

Dýrahald snýst í eðli sínu um dýravernd. En í þessum efnum hafa lögin þar að lútandi verið þverbrotin – og það árum saman. Eftir stendur sködduð ímynd af hrossarækt hér á landi og harla sprunginn stallur íslenska hestsins, sem hefur verið eitt af einkennistáknum íslenskrar þjóðmenningar um aldir, enda einstakur á heimsvísu fyrir fjölhæfni sína.

Kjarni þessa máls er sá að ómögulegt er að taka blóð úr ótömdum og hálfvilltum hryssum í sérstökum blóðtökubásum án þess að beita þær harðræði, svo sem myndir dýraverndarsamtakanna sanna, en dýrin eru þar bundin í þröngu hólfi, höfuðið reyrt upp og slám skotið yfir og aftan við þau áður en slagæðin á hálsi er rofin og fimm lítrum er tappað af skelfingu lostinni merinni næstu fimmtán mínúturnar – og vel að merkja, allan þann tíma reynir hún allt hvað af tekur að brjótast úr búri sínu.

Eftir þennan ótuktarskap stendur hryssan varla undir sér, enda búin að missa 15 prósent af blóði sínu – og til að bíta höfuðið af skömminni er athæfið svo endurtekið næstu átta vikur, en þá er búið að tappa af dýrinu sem nemur heildarblóðmagni þess.

Allt er þetta gert til að svala gróðahyggju mannsins, ekki aðeins þeirra liðlega hundrað bænda sem leyfa þennan óskunda á býlum sínum, heldur líka forkólfa fyrirtækisins Ísteka sem kaupa árlega um 170 tonn af blóði úr þúsundum mera til að auka frjósemi gyltna á svínabúum, en PMSG-hormónið úr fylgju blóðmerarinnar, sem sprautað er í gylturnar, rýfur tíðahring þeirra svo hægt er að sæða þær miklu oftar. Níðingsskapurinn á blóðmerum er því gerður til að fjölga grísum á færibandi í iðnaðarframleiðslu.

Matvælastofnun skrifar upp á þessi ósköp. Því fari fjarri að „augljóslega þurfi að beita hryssurnar ofbeldi“ við aftöppun blóðsins, eins og segir í einu svara hennar. Þau orð eru komin á öskuhauga eftirlitsins.