Nánast hvert mannsbarn er vandlega upplýst um fráfall Elísabetar II. og fullyrt er að annað hvert þeirra hafi fylgst með jarðarför hennar í upphafi vikunnar. Maður getur verið staðfastur lýðveldissinni – eins og ég – en engu að síður borið virðingu fyrir mögnuðu ævistarfi hennar, seiglu og staðfestu. Auðvitað eru konungdæmi fyrir lifandis löngu úrelt fyrirbæri eftir að eiginleg völd færðust frá þeim og verða sífellt furðulegri í samtímanum. En það breytir engu um það að sinn er siður í hverju landi og vel fer á því að virða það.

Ég var stödd í London um liðna helgi og þó að ekki færi á milli mála að elskaður þjóðhöfðingi hafði fallið frá er ekki hægt að segja annað en að almenningur, verslunareigendur og aðrir sýndu minningu hinnar látnu virðingu á lágstemmdan og viðeigandi máta. Á Heathrow-flugvelli var einnar mínútu þögn sem allir tóku þátt í og var það átakalaust og hátíðlegt í einfaldleikanum.

Öðru virtist vera að heilsa hér á landi á útfarardaginn. Ég átti leið um nokkra vinnustaði og var nokkuð hissa á tilstandinu. Fólk var vart vinnufært, stórum skjáum komið fyrir í vinnurýmum, breskar veitingar flóðu af borðum og margir klæddu sig upp á. Sjálfri fannst mér ekki tilefnið vera þess eðlis að fólk lyfti sér upp, enda jarðarfarir sjaldnast þess eðlis, en auðvitað hafa allir sinn hátt á.

Eiginmaður minn, jafnvel staðfastari lýðveldissinni en ég, furðaði sig nokkuð á athyglinni og umstanginu og spurði: „Hvað hefur þessi fjölskylda eiginlega gefið út fyrir sína heimahaga?“ Við þessu er auðvitað augljóst svar: Netflix-serían „The Crown“.