Þrátt fyrir viðsjár í efnahagsmálum hefur fiskeldi aflað meiri gjaldeyristekna en nokkru sinni og vægi þess aldrei verið meira. Á síðasta ári var slátrað um 40,6 þúsund tonnum af eldisfiski og útflutningsverðmæti nam um 29,3 milljörðum. Verðmæti útfluttra sjávarafurða nam um 270 milljörðum króna og því var hlutfall fiskeldis af útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í um 11 prósent. Það eru tæp 5 prósent verðmæta vöruútflutnings þjóðarinnar.

Fiskeldið er því ekki einungis komið til að vera, heldur stefnir í að verða einn af grunnatvinnuvegum Íslendinga. Það hefur burði til að vaxa, ólíkt öðrum sjávarútvegi sem sækir í takmarkaða auðlind byggða á sjálfbærri nýtingu.


Útflutningsverðmætið í 100 milljarða?


Nýsamþykkt tillaga Hafrannsóknastofnunar um áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar laxeldis, gerir ráð fyrir að heimilt sé eldi 106 þúsund tonna í sjó. Vaxi það nærri gildandi áhættumati fiskeldisins, gæti útflutningsverðmæti sjóeldisins orðið nærri 80 milljarðar króna. Miðað við 800 króna greiðslu fyrir kílóið í útflutningi. Auk þessa verðmætis í sjóeldi er á næstu árum stefnt á landeldi á laxi, bleikju og öðru fiskeldi fyrir um 15 milljarða króna. Það lætur því nærri að útflutningsverðmæti fiskeldis geti orðið tæplega hundrað milljarðar króna á næstu árum. Gangi þetta eftir verður fiskeldið stór hluti útflutningsverðmæta íslenskra sjávarafurða.

Síðasta ár náði framleiðsla laxa í sjókvíum 32,3 þúsund tonnum og hefur 13-faldast frá árinu 2015. Í landeldi nam lax um 2,1 þúsund tonni árið 2020. Framleiðslu- og fjárfestingakostnaður landeldis er margfaldur á við kostnað sjókvía­eldis. Að auki er talið að kolefnisspor laxeldis á landi sé hærri. Liggur það meðal annars í orku- og landnýtingu ásamt endingartíma eldisstöðva. Engu að síður gætu falist tækifæri í landeldi þó meginframleiðslan á laxi yrði í sjókvíum.


Fiskeldið er landsbyggðarinnar


Fyrir alla áhugamenn um atvinnuuppbyggingu landsbyggðar er vaxtarþróun fiskeldis mikilvæg. Byggðastofnun telur að jafnaði hafa mátt rekja um 81 prósent atvinnutekna í fiskeldi til landsbyggðarinnar.

Á það ekki síst við um fiskeldi á Austfjörðum, þar sem slátrað var 10,2 þúsund tonnum á síðasta ári. Nýsamþykkt hámarkseldi á laxi á ári gerir ráð fyrir 42.000 tonnum. Það er 60 prósenta aukning á Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði og Seyðisfirði. Við blasir breytt efnahagsmynd eldisins: Kærkominn drifkraftur, það dregur úr einsleitni atvinnulífs og atvinnusköpun eykst til muna. Ungt fólk sækir í fjölbreytt verkefni fiskeldis og sama gildir um afleidd störf sem hafa skapast við að þjónusta fiskeldið. Byggðastofnun telur að hvert starf við sjókvíaeldi skapi 1 til 1,3 afleidd störf.

Ánægjulegt hefur verið að fylgjast með Fiskeldi Austfjarða, sem hófst árið 2012 í Berufirði og hefur síðan farsællega byggt upp starfsemi þar og á Fáskrúðsfirði, og slátrun og vinnslu á Djúpavogi. Hluti afurðavinnslunnar er í Borgarnesi og seiðaeldið í Þorlákshöfn og í Kelduhverfi. Reksturinn sem heldur nú um 100 starfsmenn liggur því víða um landsbyggðina.

Fiskeldið hefur burði til að vaxa, ólíkt öðrum sjávarútvegi sem sækir í takmarkaða auðlind byggða á sjálfbærri nýtingu.

Sama gildir um fyrirtækið Laxar fiskeldi sem rekur seiðaeldi í Ölfusi en er með umfangsmikið og fullkomið sjókvíaeldi á Reyðarfirði með 16.000 tonna framleiðsluheimild á laxi. Slátrun fer fram á Búlandstindi í Djúpavogi, sem er í eigu þeirra og samstarfsaðila.

Einnig hefur verið áhugavert að sjá endurnýjun og uppbyggingu seiðastöðva, sem skila stöðugt fleiri seiðum til áframeldis. Námu fjárfestingar í seiðaeldinu í Kelduhverfi og á Kópaskeri um tveimur milljörðum króna á síðasta ári og fyrirhuguð er frekari uppbygging upp á 3 til 4 milljarða. Mikil þekking er fyrir hendi á Rifósi í Kelduhverfi. Starfsfólk með áratuga starfsreynslu og menntun í eldi frá Hólum.


Í sátt við umhverfið


Þrátt fyrir að stór hluti Íslands hafi verið lokaður fyrir fiskeldi frá 2004 og stjórnvöld setji eldinu æ strangari kröfur, óttast menn umhverfisáhrif og vöxt fiskeldisins.

Við skulum gera ríkar kröfur um uppbyggingu eldis í sátt við umhverfið. Innan eldisfyrirtækja er sterk umhverfisvitund enda sjálfra þeirra hagsmunir að ganga vel um náttúruna. Kröfur alþjóðlegra umhverfisvottana aga einnig starfsemina.

Ótti um aðkomu erlendra fyrirtækja í fiskeldi er ástæðulaus. Þau miðla íslensku eldi mikilli reynslu og þekkingu og dreifa fjárhagslegri áhættu af innlendri uppbyggingu. Áhugavert er að flest laxeldisfyrirtæki eru nú skráð á hlutabréfamörkuðum og íslenskir fjárfestar, þar með talið lífeyrissjóðir, hafa fjárfest í þessari vaxandi atvinnugrein. Óháð eignaraðild er fiskeldið að skilja mikið eftir sig í hinum dreifðu byggðum.

Efnahagsleg hagsæld mun áfram byggja á vexti útflutningsgreina. Þar verður fiskeldið æ mikilvægari drifkraftur atvinnusköpunar og byggðafestu, ekki síst á Austfjörðum.

Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi