Núverandi heimsfaraldur, kenndur við Covid, er ekki fyrsti faraldur sem gengið hefur yfir heiminn. Nefna má Svartadauða, einn skæðasta faraldur sögunnar, sem náði hámarki í Evrópu um miðja 14. öld. Áætlað er að um 75 milljónir manna hafi látist úr sóttinni, þar af nær 30 milljónir í Evrópu eða meira en þriðjungur íbúa álfunnar þá, sem samsvarar nær 250 milljónum manna nú.
Svartidauði var mjög skæður á Íslandi. Á sumum sveitabæjum dóu allir og sagt er að heilar sveitir hafi eyðst. Prestum var sérlega hætt við að smitast, þar sem þeir vitjuðu dauðvona fólks og veittu skriftir. Er sagt að einungis hafi lifað þrír prestar á öllu Norðurlandi og einn munkur og þrír djáknar á Þingeyrum.
Heilar ættir dóu og mikil tilfærsla varð á eignum. Sumir erfðu stóreignir eftir fjarskylda ættingja. Gat stundum verið erfitt að finna rétta erfingja, þegar óvíst var í hvaða röð fólk hafði dáið. Þá eignaðist kirkjan fjölda jarða því að fólk hét á kirkjur og dýrlinga sér til sáluhjálpar.
Verðmæti jarðeigna hrapaði á sama tíma því margar jarðir lögðust í eyði og leiguverð lækkaði. Mikill skortur var á vinnuafli eftir Svartadauða og liðu áratugir þar til úr fór að rætast. Þetta kom ekki síst niður á sjósókn, sem varð til þess að minna aflaðist af fiski, sem þá eins og oft endranær var helsta útflutningsvara Íslendinga.


Stórabóla


Stórabóla var bólusótt sem barst til Íslands í júní 1707 og gekk um landið á árunum 1707 til 1709. Er talið að um 15 þúsund manns – eða nær þriðjungur landsmanna – hafi látist úr veikinni, en mannfjöldi á landinu árið 1703 var 50.358 manns.
Hjáleigur og kotbýli lögðust víða í eyði og skortur varð á vinnufólki. Á árunum fyrir bóluna höfðu sprottið upp hjáleigur og þurrabúðir víða við sjávarsíðuna þar sem fólk byggði afkomu sína að miklu á sjósókn, en mikill afturkippur kom í þetta við bóluna. Einnig urðu breytingar á landbúnaði, nautgripum fækkaði þar sem kúabúskapur var vinnuaflsfrekari en sauðfjárrækt og mikilvægi sauðfjárafurða í útflutningi jókst.
Í Árbókum Espólíns segir að Stórabóla hafi borist til landsins með fatnaði Gísla Bjarnasonar, sem dáið hafði í Kaupmannahöfn. Systir hans tók upp úr fatakistu sem send var heim, skyrtu og annan fatnað og veiktist skömmu síðar. Einhvers konar inflúensa var samfara bólusóttinni og í Fitjaannál er talað um farsótt með þungu kvefi. Víða lögðust allir íbúar sveitabæja og jafnvel íbúar heilla sveita svo að enginn stóð uppi til að hjúkra þeim sjúku. Um það segir Páll Vídalín: „Þá var svo margur maður bólusjúkur í Snæfellsnessýslu að þeir heilbrigðu unnust ekki til að þjóna þeim sjúku, og ætla ég víst, að fyrir þjónustuleysi muni margur dáið hafa, sem ella hefði kunnað að lifa.“


Spænska veikin


Spænska veikin var inflúensufaraldur sem gekk um heiminn á árunum 1918 og 1919 og er mannskæðasta farsótt sögunnar sem olli dauða um 25 milljóna manna. Sumir telja að tala látinna hafi jafnvel verið mun hærri – eða allt að 40 milljónir. Sóttin gekk í þremur bylgjum og er talin hafa byrjað í bandarísku herstöðinni Camp Funston í Kansas. Þaðan barst hún með bandarískum hermönnum til Evrópu vorið 1918. Þessi fyrsta bylgja virðist hafa verið tiltölulega saklaus, en um sumarið kom banvænt afbrigði fram sem lét verulega kveða að sér í ágúst. Þriðja bylgjan gekk svo um heiminn veturinn 1918 til 1919.
Inflúensan fékk fljótlega viðurnefnið spænska veikin, því að átta milljónir manna sýktust á Spáni strax í maí 1918. Spænskir fjölmiðlar fylgdust ítarlega með framgangi veikinnar sem þeir kölluðu hins vegar „frönsku flensuna“. Fjölmiðlar styrjaldarríkjanna voru aftur á móti ritskoðaðir og áttu því auðveldara með að fjalla um „spænsku veikina“ en inflúensuna sem geisaði í heimalöndum þeirra.
Spænska veikin barst til Íslands með skipunum Botníu frá Kaupmannahöfn og Willemoes frá Bandaríkjunum 19. október 1918, sama dag og fullveldi Íslands var samþykkt. Fljótlega fór fólk að veikjast og í byrjun nóvember var faraldurinn kominn á skrið og fyrsta dauðsfallið skráð. Miðvikudaginn 6. nóvember er talið að þriðjungur Reykvíkinga hafi legið sjúkur. Á þessum tíma var mikill húsnæðisskortur í Reykjavík og bjuggu margir við ömurlegar aðstæður sem gerði illt verra, og til að bæta gráu ofan á svart gekk mikið kuldakast yfir á sama tíma.
Allt athafnalíf í Reykjavík lamaðist. Flestum verslunum var lokað og blöð hættu að koma út. Talsamband við útlönd féll niður því að allir starfsmenn Landsímans utan einn veiktust. Messufall varð og sorphirða féll niður svo og hreinsun útisalerna. Erfitt var að annast líkflutninga og komið upp bráðabirgða líkhúsum. Brugðið var á það ráð að jarðsetja fólk í fjöldagrafreitum 20. nóvember, en þá var veikin þó tekin að réna.
Samkvæmt opinberum tölum létust 484 Íslendingar úr spænsku veikinni eða um 5% landsmanna en á landinu bjuggu þá liðlega 91 þúsund manns. Kom veikin þyngst niður á Reykjavíkingum, en með ströngum sóttvörnum og einangrun tókst algerlega að verja Norðurland og Austurland. Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur gaf árið 2020 út bókina „Spænska veikin“ og lýsir þar hrikalegum aðstæðum þar sem hundruð voru grafin í fjöldagröfum í Hólavallagarði á nokkurra vikna tímabili.


Akureyrarveikin


Akureyrarveikin var lömunarveiki sem greindist á Akureyri í september 1948. Íbúar þar voru þá 6.900 talsins, en alls veiktust þar 465 manns. Veikin barst til Sauðárkróks, Hvammstanga og Ísafjarðar í lok 1948 og í byrjun árs 1949 komu stök tilfelli upp nánast um allt land. Veikin var ekki bráðsmitandi en var útbreidd á heimavist Menntaskólans á Akureyri.
Akureyrarveikin lýsti sér með langvinnum sótthita og fylgdu liðverkir og vöðvasærindi, særindi í hálsi og óþægindi í meltingarvegi. Höfuðverkur var algengur og sömuleiðis verkur og stífleiki í hálshrygg. Hinir veiku svitnuðu mikið og fundu fyrir streitu og kvíða. Flestir urðu máttlausir eða dofnir í hluta líkamans, svo sem í annarri hlið hans eða í fótum eða handleggjum og einstaka lömuðust til langframa, en enginn mun hafa látist.