Ég hitti konu um daginn sem hafði nýlega, þá komin yfir fertugt, fengið ADHD greiningu.

Hún rakti raunir sínar fyrir mér, vitandi að ég fékk mína greiningu fyrir rúmu ári.

Svo horfði hún á mig, örlítið skömmustuleg og vongóð í bland og hún spurði mig:

„Finnst þér aldrei erfitt að vera svona? Að vera síðri en aðrir og að það er sífellt verið að biðja þig um að vera og gera minna?“

Án þess að hugsa svaraði ég: „Nei. Við erum betri ef eitthvað er. Aldrei verri.“

Hún horfði hissa á mig. Svo brosti hún til mín svo breitt og innilega að hjartað mitt tók stóran kipp.

Ég sagði henni því frá eldri bróður mínum sem er svo ofvirkur að ég hef aldrei séð annað eins.

Hann lýsti því nýverið fyrir mér hvernig líf hans loks gengi upp eftir að hann fékk greiningu og rétt lyf.

„Nú elska ég að vera svona. Pældu í að vera svona,“ sagði hann og nikkaði í átt að ungum manni sem var að sópa óþægilega hægt.

Svo bætti hann hlæjandi við: „Agalega lengi að gera allt. Ekki við.“

Það er margt jákvætt við að vera með ADHD stýrikerfið. Dóttir mín mun læra það.

Það býr í okkur dreki. Ef við lærum að temja hann með réttri aðstoð þá getum við flogið hærra en margir aðrir og séð og gert meira.

Ef við temjum hann ekki verður lífið erfitt, drekinn reiður og kveikir elda sem við ráðum ekki við.