Ég sá þættina Maid á Netflix fyrir rúmu ári síðan, en þeir eru byggðir á sannri sögu ungrar konu sem flúði ofbeldissamband með ungt barn og hafði ekki í nein hús að venda.

Hún fékk svo loks starf við að þrífa hús hjá mjög efnuðu fólki. Það er sérstaklega ein setning sem hefur setið í mér síðan ég sá þættina.

Unga konan er að þrífa gullfallegt risastórt hús sem kona, sem virðist eiga allt, býr í.

Húseigandinn er farsæl, arkitekt, falleg, gift myndarlegum bankagutta.

Allt virðist þetta vera eins og best er á kosið en það er auðvitað sjaldnast þannig.

Það sem unga konan staldrar við er þó ekki rándýra húsið eða fallega konan heldur tíminn sem hún hafði – eða eins og hún orðaði það – „She has the the luxury of time.“

Þessi setning hefur haldið í mig síðan. Það eru ekki peningarnir sem skipta máli heldur að geta hagað málum þannig að við höfum tíma.

Þurfum ekki stanslaust að vera að reka á eftir börnunum eða blóta á rauðu ljósi með sveitta efri vör og fjörfisk af streitu yfir því að vera of sein.

Það kallar á margt fleira en styttri vinnudag.

Fækka verkefnum og læra nægjusemi.

Kannski má Ikea fokka sér í eina viku í viðbót?

Eru útréttingarnar á listanum nauðsynlegar?

Má kannski fækka þeim um helming og setjast fyrr niður með fjölskyldunni?

Upplifa lúxusinn sem augnablikið er?