Fyrr í vikunni varð Héraðsdómur Reykjavíkur vettvangur merkilegra endurfunda.

Mættir voru til að gefa skýrslu fyrrverandi lögreglumenn sem rannsökuðu hvarf Geirfinns Einarssonar í Keflavík í nóvember 1974. Einnig gáfu skýrslu rannsakendur sem réðu

ríkjum í Síðumúlafangelsi meðan fjöldi fólks húkti þar frelsissvipt mánuðum og jafnvel árum saman grunað um aðild að mannsmorði, einu eða tveimur. Hinir síðarnefndu reyndust

fátt muna enda kannski ekki skrítið að vilja gleyma því sem þó hlýtur að hafa sótt á þá í öll þessi ár enda ekki litlir glæpir sem á þá hafa verið bornir síðustu áratugi. Til

endurfundanna komu einnig þrír menn sem sættu gæsluvarðhaldi í 105 daga fyrri hluta ársins 1976 og að lokum gestgjafinn sjálfur, Erla Bolladóttir, sem gefst ekki upp á að fá

bundinn einhvern lokahnút á málið, annan en þann sem kynntur var á frægum blaðamannafundi lögreglunnar 2. febrúar árið 1977.

Ótal rannsóknir hafa verið unnar um þessi alræmdu sakamál. Harðræðisrannsókn, rannsókn á tilurð Leirfinns og áhuga lögreglunnar á Klúbbmönnum, rannsókn á játningum í

málinu og rannsóknaraðferðum lögreglunnar. Þrátt fyrir þá bílfarma af gögnum sem aflað hefur verið um mannshvörfin tvö og þó ekki síður rannsóknir þeirra, erum við enn í

myrkrinu um svo ótalmargt. Aðalmeðferð í máli Erlu Bolladóttur síðustu tvo daga sýndi að fólk sem þó hefur haft að aðalstarfi árum saman að garfa í málinu, fetar sig í

kolniðamyrkri á stórum köflum.

Málið er í rauninni allt ein stór getgáta, orðrómur um bílferðir, viðskipti með smygl, eimingartæki sem ekki voru sótt. Mikið magn málsgagna hefur týnst og óvissa ríkir um hvað

raunverulega gerðist í yfirheyrslum og hvernig það kom til að tugir saklauss fólks voru orðaðir við mannsmorð og Keflavíkurferðir.

Og Geirfinnur er enn týndur. „Það var enginn ekki neinn þessa nótt á dráttarbrautinni né heldur síðar,“ orti Megas og varð meðal þeirra fyrstu til að sjá það sem

þó hafði lengi verið augljóst.

Í endurfundunum í héraðsdómi speglaðist sú dráttarbraut sem Geirfinnsmálið hefur hjakkað í síðustu áratugi. Allra þeirra vegna, sem þar komu saman, þarf að koma málinu á beina

braut og leiða það til lykta.

Líklega geta þær lyktir aldrei orðið fyrr en við finnum Geirfinn sjálfan og jafnvel þá er enn margt eftir.