Það var með stolti sem landsmenn horfðu á stelpurnar sínar leika nokkurn veginn við hvurn sinn fingur á víðum völlum Manchester-borgar um helgina, enda léku þær Belgana oftar en ekki grátt, þótt sigur hafi ekki náðst á endanum.

En úr því verður bætt í næsta leik, enda mun leynivopnið að lokum duga til að hafa sigur á andstæðingunum.Það hlýtur nefnilega að vera svolítið ruglingslegt og að vonum líka truflandi að elta ellefu leikmenn úti á vellinum sem allir heita það sama í endann á nafninu.

Bláa hafið

Annars verður að taka hattinn ofan fyrir þeim fjölda landsmanna sem lagt hafa leið sína í Langhastar-skíri til að hvetja þessa knattspyrnusnillinga okkar, en ekki var ónýtt fyrir áhorfendur sem heima sátu að horfa á bláa hafið liðast um stúkuna, svo eftir var tekið af ensku myndatökumönnunum, að ekki sé talað um daldrandi fyrirganginn hjá þessari sömu sveit sem kæfði á svipstundu ræfilslega tilraun belgísku áhorfendanna til að yfirgnæfa víkingaklappið sem tekið var á tólftu mínútu. Þá var allur vindur úr þeim belg, hafi hann verið einhver fyrir.