Ég hef á tilfinningunni að viðhorfið til verslunarmannahelgarinnar hafi breyst á síðari tímum. Á menntaskólaárum mínum og fram á fullorðinsár var þessi helgi æði fyrirferðarmikil. Hún markaði hápunkt í sumrinu. Undantekningalaust var gengið út frá því að fylleríið um verslunarmannahelgina yrði epískt. Nú á miðjum aldri er mér orðið nokkuð ljóst að þessi nálgun á þriggja daga frí – að sturta í sig víni og vera hlandölvaður – er ekki sjálfbær. Það hefur tekið mig nokkurt skeið og markvissar tilraunir á eigin skinni að gera þessa uppgötvun og mér virðist jafnvel að annað fólk í stórum stíl hafi gert hana líka. Ég er ekki frá því að fleiri og fleiri kjósi að verja frístundum sínum í eitthvað annað en að rangla drafandi um í pollagalla í drullusvaði með flatan bjór.

Ég fór einu sinni á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Ég varði einni nótt þar. Ég fékk notið brekkusöngsins og ýmissa annarra herlegheita og að sjálfsögðu var það markmið haft í hávegum að við vinirnir yrðum sem ölvaðastir. Drukkið var. Mér er stemningin minnisstæð og vissulega var á ákveðinn hátt gaman, en nú þegar ég lít til baka verð ég að viðurkenna að ekki er til sú fruma í mér sem langar á nokkurn hátt að endurupplifa þessa kvöldstund. Tvær minningar, önnur mynd- og lyktræn, hin mynd- og hljóðræn, lifa í huganum.

1) Á einhverjum tímapunkti þurfti ég að kasta af mér vatni. Mér var sagt að fara upp í brekkuna, fyrir ofan fólkið, hvar það sat og tók þátt í brekkusöngnum. Þar stóð fullt af karlmönnum og konur sátu á hækjum sér og þvagið vall. Pissið seytlaði væntanlega í töluverðu magni niður hlíðina og undir afturenda hinna gestanna. Á leiðinni niður rann ég aftur til vina minna í hlandsósuðum jarðveginum.

2) Síðar um nóttina þegar ég freistaði þess að sofna í tjaldinu undir morgun, eftir að hafa ráfað um á miðtaugakerfinu einu saman drjúga stund, brast ötull drykkjumaður á síðasta snúningi út í söng fyrir framan tjald sitt við hlið okkar. Hann söng Barfly með Jeff Who. Eins og margir vita nær sá góði smellur hápunkti með ógnarmiklu tralli í lokin. Maðurinn söng bara það. Hann sat á stól fyrir framan tjald sitt, einn í sumarnóttinni og á milli söngrokanna – sem hann gaf sig allan í – dó hann áfengisdauða sífellt í óreglulegt stundarkorn. Við þennan gjörning var auðvitað ómögulegt að festa nokkurn svefn. Á þessu gekk í um tvær klukkustundir, um það bil frá sex til átta.

Ég hef stundum rifjað þessar minningar upp mér og öðrum til skemmtunar, eða íhugunar. Sögur af fylleríum hafa alltaf átt visst pláss í menningarlífi Íslendinga. Kannski hafa þær verið sagðar af svo mikilli ástríðu vegna þess að með því að deila drykkjuminningum skapast sameiginlegur reynsluheimur þar sem við erum saman í ruglinu. Saman í ruglinu hefur lengi verið visst markmið þessarar þjóðar.

En nú þegar ég segi að viðhorfið til verslunarmannahelgarinnar hafi breyst, byggi ég það ekki á vísindalegum gögnum heldur tilfinningu. Upp er vaxin kynslóð sem lítur ekki svo á að höfuðmarkmið frídaga sé að vera út úr heiminum. Og margir sem eldri eru hafa gert sínar uppgötvanir líka.

Í stuttu máli gengur áfengisneysla út á það að spýta öllum dópamínbirgðum líkamans inn í heilann á sem skemmstum tíma. Dópamín er vellíðunarhormón og áfengi er stutta leiðin að því. Það tæmir allar dópamínhirslur. Verslunarmannahelgin hefur í gegnum tíðina verið hápunktur þessarar iðju. Hún hefur verið Dópamínhelgin með stóru D-i. Það sem enginn sagði mér og vinum mínum á sínum tíma, en æ fleiri hafa verið að uppgötva, er að dópamín má hæglega framleiða í líkamanum með öðrum hætti en að vera hauslaus. Hausleysi er í raun mjög slæm aðferð, þótt hún sé áhrifamikil. Ég vissi þetta ekki fyrr en nýlega. Hlátur framkallar dópamín, faðmlag, fíflagangur, söngur, gott súkkulaði, falleg náttúra, hreyfing, svefn, kynlíf, sólskin, hugleiðsla og í raun allt sem fær mann til að upplifa hamingju og líka árangur, sem er viss snilld. Að vakna óþunnur, eftir að hafa sett sér markmið um að drekka lítið eða ekkert, örvar dópamín.

Heimurinn allur tekst nú á við afleiðingar þess að um langt skeið hefur það verið talið til eftirbreytni að tæma allar auðlindir á sem skemmstum tíma, njóta í botn og skeyta ekki um afleiðingarnar. Það hugarfar þarf að breytast. Hægt er að njóta á betri hátt og með betri afleiðingum, á öllum sviðum mannlífsins. Verslunarmannahelgin er hugsanlega að breytast meira í þannig dópamínhelgi. Ég ætla að vera í bænum og fá mér súkkulaði.