Til að syrgja Kim Jong-il, fyrrverandi leiðtoga Norður-Kóreu, sem lést fyrir sléttum tíu árum, hafa þarlend stjórnvöld bannað skemmtanir og næstu daga mega þegnar landsins ekki einu sinni hlæja. Ætla má að lögregla þar í landi standi nú í ströngu við að elta uppi fólk sem sést með bros á vör.

„Fólk var að dansa, það þurfti að taka á því … það á ekki að vera að dansa,“ sagði í einni frétt ríkisfjölmiðilsins á sunnudag. Þó ekki ríkisfjölmiðils Norður-Kóreu, eins og margir kynnu að halda, heldur íslenska ríkisfjölmiðlinum og voru ummælin höfð eftir aðstoðaryfirlögregluþjóni höfuðborgarsvæðisins í viðtali á RÚV eftir annasama sóttvarnanótt um helgina. Það er því ekki bara í Norður-Kóreu sem lögregluyfirvöld þurfa að „taka á“ borgurum sem leyfa sér að stíga dans og nú eru sams konar fréttir fluttar af lögregluaðgerðum beggja landa. Það er hrollvekjandi staðreynd. Þríbólusett fólk með neikvætt hraðpróf í farteskinu má eiga von á því að lögregla hafi af því afskipti ef það skemmtir sé of mikið. Og í landi „hinna frjálsu“ sendi Hvíta húsið frá sér eftirfarandi yfirlýsingu fyrir fjórum dögum: „Til ykkar óbólusettu, þið eruð að horfa fram á vetur af alvarlegum veikindum og dauða fyrir ykkur, fjölskyldur ykkar og sjúkrahúsin sem þið munuð senn fylla.“ Vá! Er Trump enn forseti?

Sagt er að vegurinn til heljar sé oftast varðaður góðum ásetningi. Barátta við veiru hefur nú gengið lengra og lengur en nokkurn hafði órað fyrir í upphafi. Vonandi vaknar heimsbyggðin ekki of seint upp af þessum vonda draumi og kjánalegar fréttir frá NorðurKóreu einskorðast við þann hluta heimsins