Gærdagurinn rann upp bjartur og fagur víða um land og viðbúið að einhverjir hafi nýtt hann til útivistar. Dagar sem þessir eru kærkomnir, enda veðrið verið fremur rysjótt í vetur.

En það var tilefni til að fagna fleiru en veðrinu í gær, þó þau hátíðahöld hafi verið lágstemdari og fámennari en tilefni var til, en þá voru eitt hundrað ár síðan Hæstiréttur Íslands tók til starfa.

Tildrög að stofnun Hæstaréttar var langur og barátta landsmanna fyrir því að æðsta dómsvald skyldi vera í höndum Íslendinga samofin sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar á 19. öld. Á heimasíðu réttarins segir að krafa um innlent æðsta dómsvald í íslenskum sérmálum hafi fyrst komið fram á þjóðfundinum 1851. Upp frá því hafi málinu ítrekað verið hreyft en ekki náð fram að ganga.

Í sambandslögunum frá 1918 var fullveldi Íslands viðurkennt og þar með var framkvæmdarvaldi komið í hendur okkar sjálfra. Hæstiréttur Danmerkur hafði áfram æðsta dómsvald í íslenskum málum en undirbúningur stofnunar Hæstaréttar Íslands var þegar hafin og tók hann formlega til starfa 16. febrúar 1920.

Rétturinn er grundvallarstofnun og táknmynd sjálfstæðis og fullveldis landsins. Það vekur því undrun að aldarafmælis hans skuli ekki minnst opinberlega heldur haldið einkasamkvæmi í Þjóðleikhúsinu.

Eitt höfuðeinkenni íslenskrar stjórnskipunar er greining ríkisvaldsins í þrjá þætti, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Hverjum þætti er ætlað að takmarka og tempra hina og minnka þannig líkur á ofríki og geðþóttastjórn.

Undanfarið hefur verið deilt um það hér á landi hvernig staðið er að dómaraskipun. Þær deilur eru ekki bundnar við Hæstarétt því deilt hefur verið um skipan héraðsdómara og kunnara er en frá þurfi að segja að Landsréttur er í uppnámi vegna deilna um hvernig staðið var að skipun dómara við réttinn.

Fyrir utan þau þrætuepli sem borin hafa verið á borð fyrir landsmenn í tengslum við starfrækslu dómstóla að undanförnu, verður að telja sennilegt að fjöldi annarra mála séu þar einnig til trafala þó þau séu undir yfirborðinu, enn sem komið er.

Miklu skiptir fyrir íslenska þjóð að búa við óháð dómsvald og réttaröryggi og á það við um öll dómstig.

Á vef Hæstaréttar er vitnað til orða Einars Arnalds, forseta réttarins þegar 50 ára afmælis hans var minnst : „Á Hæstarétti hvíla þær skyldur að heiðra þann meginrétt, sem stjórnskipun okkar er reist á.“ Jafnframt: „Helgustu mannréttindi verða ekki í raun tryggð nema í skjóli sjálfstæðs og óhlutdrægs dómsvalds.“

Í tilefni aldarafmælis hefði farið vel á að umhverfi og umgjörð dómstóla yrði skoðuð í kjölinn. Dómstólar njóta trausts innan við helmings þeirra sem reglulega eru spurðir í þjóðarpúlsi Gallup. Þó margar mikilvægar stofnanir samfélagsins búi við svipað eða lakara traust, ætti þetta að vera áhyggjuefni.

Hefði ekki átt að nýta aldarafmæli þess að æðsta dómsvald í íslenskum málum fluttist til landsins til annars en að halda einkasamkvæmi í Þjóðleikhúsinu?