Það ætti að vera til marks um heilbrigt hugarfar að hafa þá skoðun að í öllum meginatriðum eigi einstaklingar rétt á öðru tækifæri í lífinu brjóti þeir af sér. Þessi hugsunarháttur á hins vegar ekki alveg upp á pallborðið í samtíma okkar. Metoo-byltingin var þörf en eins og iðulega gerist í byltingum þá hafa eftirköst hennar orðið alvarleg og ofsafengin og kostað mannfórnir.

Ekki er hér ætlunin að fjalla um einstök mál heldur einungis verið að nefna það augljósa, hversu stjórnlaus umræðan er orðin þegar hægt er að benda á hvern sem er og saka hann um alls konar hluti og dæma viðkomandi sekan vegna orðróms, með tilheyrandi ærumissi og jafnvel atvinnumissi. Viljum við lifa í slíku sakbendingarþjóðfélagi? Stærstur hluti þjóðarinnar vill það örugglega ekki og veit mætavel að stjórnlaus refsigleði er ekki einkenni á siðuðu samfélagi.

Nú um stundir grassera hér alls kyns hópar sem samanstanda af æstu og refsiglöðu fólki, aðallega konum, sem taka sér það vald að rétta yfir karlmönnum. Það er til marks um jafnvægisleysi þessa fólks að einn hópurinn kallar sig Öfgar – hann gæti allt eins kallað sig Ofstæki. Þetta fólk vill að þeim karlmönnum, sem það telur hafa brotið af sér gagnvart konum, sé gert að búa við eilífa útskúfun. Þá skiptir engu þótt viðkomandi hafi verið sýknaður fyrir dómstólum eða að mál viðkomandi hafi aldrei farið fyrir dómstóla. Orðrómur nægir til að hópurinn stígi fram með ásakanir og kveði upp sinn miskunnarlausa dóm. Og hver sem leyfir sér að andmæla þeim vinnubrögðum er talinn vera sorp í augum dómstóls götunnar, stimplaður sem andstyggilegur talsmaður ofbeldismenningar og sagður þjást af alvarlegri gerendameðvirkni.

Hvað er eiginlega orðið um hófstillta umræðu – á hún virkilega ekki neitt erindi lengur? Allavega fær hún ansi lítið pláss. Fjölmiðlar bera síðan sína sök, þeir eru í stöðugri leit að fyrirsögnum í upphrópunarstíl og vita að það skilar sér í hagstæðum lestrartölum. Þeir mættu sannarlega sýna meiri hófstillingu, frekar en að taka þátt í æsingnum. Meðvirkni þeirra með dómstóli götunnar er allavega ekki þróun sem ástæða er til að fagna.

Ekki er skrýtið þótt margir hvísli að sjálfum sér: Ég vil ekki búa í svona samfélagi. Því miður vilja ekki nógu margir segja þessi orð opinberlega af ótta við að vera úthrópaðir og fá á sig þann stimpil að styðja ofbeldismenn.

Skipta óp æsingafólksins virkilega svo miklu máli að rétt sé að skrúfa fyrir skoðun sína og sannfæringu af ótta við viðbrögð hópsins? Nei!