Viðureign Arons Einars Gunnarssonar og knattspyrnuforystu Íslands á síðustu dögum hefur verið með ólíkindum. Á öðrum hluta leikvallarins stendur skærasta fótboltastjarna þjóðarinnar um árabil – og vel að merkja, landsliðsfyrirliðinn, en á hinum endanum skjálfa fætur einnar löskuðustu stjórnar sem setið hefur að völdum í íþróttahreyfingu landsins – og hefur raunar þegar misst umboð sitt sakir þöggunar um meint kynferðisafbrot eins af leikmönnum karlalandsliðsins í knattspyrnu.

Gott og vel.

Fráfarandi stjórn KSÍ tapaði trúverðugleika sínum – og hlaut að fara frá völdum eftir að upp komst um tvísögur hennar. En nú ætlar sama stjórn, eða leifarnar af henni, að hefja nýja sögustund – og landsmenn eiga bara að geta í eyðurnar.

Það er látið að því liggja í opinberum yfirlýsingum að landsliðsfyrirliði Íslands verði ekki fyrir valinu að þessu sinni vegna ástæðna af óljósustu sort. Eða nokkurn veginn af því bara. Hann geti ekki spilað út af einhverju.

Hér er gefið í skyn að nafngreindur maður – sem í þessu tilviki er þjóðargersemi á íþróttasviðinu – eigi ekki lengur erindi í landsliðshópinn af því að hann kunni hugsanlega, einhvern tíma, að hafa brotið af sér, án þess þó að nokkur viti hvort brotið var framið – og ef svo er, hversu alvarlegt það hafi verið.

Engin lögregluskýrsla liggur fyrir, engin kæra, hvað þá ákæra og þar af leiðandi enginn dómur. Bara sögusagnir.

Kynferðisofbeldi er viðbjóðslegur blettur á samfélagi fólks. Það ber ekki einasta að taka alvarlega í hverju tilviki heldur skera upp herör gegn allri þeirri lágmenningu og orðræðu sem því tengist. Þar hafa margir brugðist svo óralengi; lögregla, dómskerfi, íþróttahreyfingin sjálf – og fjölmiðlar sem hafa ekki sinnt þessum málaflokki af nógu miklum þunga allt fram til síðustu ára.

Þolendur kynferðisofbeldis verða að hafa vægi í samfélaginu. Þeir verða að eiga griðastað innan réttarkerfisins. Og þar á ekki að sýna þeim lítilsvirðingu. Aldrei.

En meintir gerendur verða líka að njóta sannmælis. Alltaf. Ella snúum við réttarkerfinu á hvolf. Og menn verða þá sekir þar til sakleysi þeirra er sannað. Viljum við það?

Dómstóll KSÍ í máli Arons Einars Gunnarssonar er dæmi um þá erfiðu vegferð sem íslenskt samfélag er að stíga eftir MeToo-byltinguna sem var svo nauðsynleg og tímabær að ekkert má lítillækka hana