Þú hefur augljóslega ekki farið í klippingu lengi“ og „vissirðu að hár vex hraðar á sumrin,“ voru þær athugasemdir sem ég fékk frá doktorsnámsnefndinni eftir að ég kynnti rannsóknaráætlun mína um samband svefns og krabbameins fyrir meira en tíu árum. Ég man ekki aðrar samræður sem fóru fram þarna á fundinum, en hvaða burði ég hafði til námsins virtist aukaatriði. Minn ytri maður – kvenmaður – vakti meiri athygli en sá innri.

Athugasemdir sem þessar eru ekki einsdæmi, hvorki í minn garð né annarra, sem hafa ekki talist til svokallaðra staðalímynda: „Ertu í alvöru læknir? Ég hélt þú værir fermingarbarn!“ Vertu hinsegin. Vertu svona. Vertu einhver önnur en þú ert.

„Ó“-viðeigandi útlit

Á dögunum birtist grein í virtu tímariti æðaskurðlækna. Það sem gerir greinina merkilega er að hún súmmerar upp hroka, fordóma og fyrirlitningu, sem fyrirfinnst meðal ákveðinnar tegundar fólks sem við rekumst á daglega. Manneskjur þessar finnast í öllum stéttum og stöðum samfélagsins og eiga það sameiginlegt að telja sig betri en aðra. Gáfaðri. Klárari. Betur klædda. Virðulegri. Með betri klippingu.

Á bak við umrædda grein eru sjö læknar sem réðu „rannsóknarmenn“ til að stofna gerviaðgang á samfélagsmiðlum í þeim tilgangi að fylgjast með námslæknum í æðaskurðlækningum í Bandaríkjunum. Meðal atriða sem töldust óviðeigandi voru að láta sjá sig í bikiní eða hafa áfengi um hönd. Læknarnir sjö komust að því að fjórði hver námslæknir sýndi klárlega, eða mögulega, óviðeigandi efni á samfélagsmiðlum. Síðan ályktuðu þeir að ungir skurðlæknar ættu að hafa í huga að óviðeigandi efni sem sé opið fyrir almenningi er einnig aðgengilegt sjúklingum, samstarfsmönnum og vinnuveitendum. Ófaglegt efni á samfélagsmiðlum töldu greinarhöfundar ekki einungis varpa slæmu ljósi á einstaklinginn, heldur alla læknastéttina.

Hvenær ætlar feðraveldið að slaka aðeins á? Fataval og útlit er eitthvað sem við notum til að styðja við okkar innri mann – en kemur ekki í staðinn fyrir hann.

Öll af sama uppruna

Stjarneðlisfræðingurinn Neil deGrasse Tyson segir að atómin sem við erum samsett úr getum við rakið til stjörnuryks – stjarna sem sundruðust í vetrarbrautinni. Biblían segir að guð hafi skapað Adam úr jarðvegi og Evu úr rifi Adams. Af þeim sé mannkynið sprottið. Hvora kenninguna sem við aðhyllumst, þá eigum við öll sama uppruna.

Í grunninn erum við gerð úr sömu atómum, hvort heldur við erum kona eða karl, hvít eða svört, stutthærð eða síðhærð.

Æðaskurðlæknagreinin er eitt súrt dæmi um hvernig ákveðinn hópur fólks telur sig hafa rétt til þess að dæma og drottna yfir öðrum. Fólk sem tekur sér vald til að kúga aðra með háðsorðum, til að fylgja ímyndaðri formúlu um meðal annars klæðaburð eða klippingu. Með því að sperra sig hljóti þeir að vera meira viðeigandi.

Ámæli um útlit er alvarlegt mál, því þegar við byrjum að þóknast öðrum til að komast hjá óþægilegum athugasemdum, þá erum við ekki lengur að lifa eftir eigin lífsgildum. Óþægilegar athugasemdir um útlit eru ekkert annað en gamaldags viðhorf sem þjónar engum tilgangi, öðrum en að upphefja egó eiganda þeirra.

Því þótt einhver hafi plagg um menntun þá gerir það hinn sama ekki að sérstökum saksóknara í málum um staðalímyndir og útlit annarra. Okkar eigið útlit kemur í raun engum við nema okkur sjálfum, enda ólíklegt að það teljist glæpsamlegt.

Og ef útlit annarra fer í taugarnar á okkur, þá höfum við alltaf val um að líta í eigin barm, eða líta annað.