Hið sáraeinfalda spil Domm var kynnt fyrir almenningi í þáttum Fóstbræðra á sínum tíma.

„Sá sem fær hjartagosa eða gosa af gagnstæðri sort, hann gefur allan sinn spaða undir tíu, svo framarlega sem summa spaðans sé hærri en tveir hæstu tíglarnir – eða segir pass, en þá verður hann líka að draga lauf,“ voru leikreglurnar útskýrðar fyrir pari sem var í kvöldverðarboði hjá vinafólki.

Mörgum þykir engu líkara en að höfundar Domm hafi samið nýjar reglur um sóttkví sem tóku gildi aðfaranótt miðvikudags.

Gúllas

Í handboltanum í Ungverjalandi er staðan jafnvel enn flóknari en íslensku sóttvarnareglurnar. Tekist er á um fjögur sæti í undan­úrslitum og um leið öruggan farmiða fyrir þrjár þjóðir á heimsmeistaramót, sem haldið verður á næsta ári.

Þannig færu liðin sem vinna gull, silfur og brons beint inn í næstu úrslitakeppni, án þess að þurfa að ómaka sig við spileríi í undanriðlum.

Nema náttúrlega að þjóðirnar í fyrsta til þriðja sæti núna séu annað hvort ríkjandi heimsmeistarar eða gestgjafar á væntanlegu heimsmeistaramóti.

Þá leika liðin sem enda í fjórða og fimmta sæti á Evrópumeistaramóti núna, á HM að ári. Nema þau séu með Covid, auðvitað.

Þá gilda nýju sóttvarnareglurnar.