Skoðun

Dómkirkja – Tómkirkja

Taugavísindi sýna að við erum ekki með sál.“ Svo skrifar heilaskurðlæknirinn Henry Marsh í bók sinni Do No Harm. „Sjálfið, tilfinningar okkar og hugsanir, ást okkar á öðrum, vonir og væntingar, hatur og ótti deyr þegar heilinn í okkur deyr.“

Í vikunni átti ég miða á fyrirlestur Breska húmanistafélagsins með fyrrnefndum Marsh. Ég var mætt snemma og í stað þess að halda beint inn í samkomusalinn og tryggja mér gott sæti ákvað ég að fara í göngutúr. Lá nokkuð á? Hversu margir hygðust eyða vorkvöldi í vangaveltur um endanleika dauðans? Svarið reyndist vera: Fleiri en maður hefði haldið.

Fullt var út úr dyrum. Þar sem ég kúldraðist á aftasta bekk varð mér hugsað til páskamessu biskups Íslands sem fram fór í Dómkirkjunni rúmri viku fyrr. Ég hafði séð brot úr messunni í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins. Svo vandræðalega tóm var kirkjan að ekki einu sinni forhertasta trúleysingja var stætt á öðru en að sjá aumur á biskupi.

Dómkirkja – Tómkirkja. Trúuðum fer fækkandi. Mannkynið hefur þó hvergi nærri snúið baki við stóru lífsspurningunum eins og fjöldinn á fyrirlestri heilaskurðlæknisins ber vitni um. Raunvísindafólk leitar í auknum mæli svara við þeim í hinum efnislega veruleika.

Hver erum við?

Um síðustu helgi hélt Sævar Helgi Bragason stjörnufræðikennari tölu við borgaralega fermingu í Reykjanesbæ. Fjallaði hann um það hvernig „öll frumefnin í líkömum okkar – járnið í blóðinu, kolefnið í vöðvunum og kalkið í beinunum – urðu til þegar stærstu stjörnurnar í alheiminum sprungu og dreifðu innyflum sínum um geiminn, svo að nýjar stjörnur, eins og sólin okkar og jörðin og lífið, gátu fæðst úr öskustónni.“ Eða eins og stjörnufræðingurinn Carl Sagan orðaði það: „Við erum öll gerð úr stjörnuryki.“

En ef það er ekkert líf eftir dauðann?

„Dauðinn er dökka undirlagið sem spegill þarf að hafa til að maður sjái eitthvað í honum.“ Svo lýsti rithöfundurinn Saul Bellow tilgangi dauðans.

Trúleysingjar eru gjarnan spurðir að því hvernig þeir setji annan fótinn fram fyrir hinn telji þeir að vegferðin leiði aðeins að ókleifum grjótvegg. Eðlisfræðingurinn Alan Lightman telur dauðann þvert á móti gera lífið aðkallandi. Í bók sinni Einstein’s Dream segir hann að án dauðans „liggur ekki á að skrá sig í háskólanám, læra nýtt tungumál, lesa Voltaire eða Newton, sækjast eftir stöðuhækkun, finna ástina og eignast börn. Ef við höfum óendanlega mikinn tíma getum við gert allt – en allt má líka bíða.“

En ef lífið er ekki kraftaverk?

Vísindin sýna að lífið er sannarlega kraftaverk. Ekki þó í þeim skilningi að það sé yfirnáttúrulegt.

„Við munum öll deyja og það er mesta lán okkar,“ segir líffræðingurinn Richard Dawkins í bók sinni Unweaving the Rainbow. „Flest fólk mun aldrei deyja því það mun aldrei fæðast. Fjöldi þeirra einstaklinga sem hefðu getað verið hér í stað mín en mun aldrei verða til er meiri en fjöldi sandkorna á Arabíuskaga ... Mögulegar samsetningar á DNA-efni okkar eru miklu fleiri en fólkið sem mun nokkurn tímann fæðast.“

Efnisheimurinn er töfraveröld bjartari en himnaríki. Hann sýnir okkur að við erum lánsöm og einstök, býður von og boðar kærleik. Á flestum sviðum mannlífsins förum við þó enn á mis við boðskap hans.

Í vikunni var trúleysingi í fyrsta sinn skipaður í stöðu „aðal-sjúkrahússprests“ á spítala í Bretlandi. Húmanisti var ráðinn í stað prests vegna síaukinnar eftirspurnar eftir sálgæslu fyrir sjúklinga og aðstandendur sem standa utan við trúfélög.

Aðeins helmingur Íslendinga kveðst trúaður; biskup predikar yfir tómu húsi. En á Landspítalanum starfa níu prestar og djáknar við sálgæslu. Hver sinnir hinum helmingi þjóðarinnar?

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fastir pennar

Nekt í banka
Kolbrún Bergþórsdóttir

Fastir pennar

Að vera einn, án annarra
Guðmundur Steingrímsson

Guðmundur Brynjólfsson

Klám
Guðmundur Brynjólfsson

Auglýsing

Nýjast

Drögum úr ójöfnuði
Sonja Ýr Þorbergsdóttir

„Ég er nóg“
Óttar Guðmundsson

Þriggja metra skítaskán
Sif Sigmarsdóttir

Lýst er eftir leiðtoga
Kristín Þorsteinsdóttir

Er um­ræðan um klukku­stillingu á villi­götum?
Gunnlaugur Björnsson

Nóg hvað?
Þórarinn Þórarinsson

Auglýsing