Það er varla ofsögum sagt að kóvið ætlar allt lifandi að drepa. Síst af þeim áhrifum er þó beinlínis vegna beinna áhrifa veirunnar. Miklu fremur eru það áhrif viðbragða okkar við henni. Hin kalda hönd sem menn hafa lagt á samfélög um heiminn er að ganga af öllu dauðu sem kvikt er.

Það er réttmætt að menn velti því fyrir sér hvort vera kunni að of langt sé gengið. Er mögulegt að hræðsluviðbragðið ráði mestu um hvernig við mætum þessum andskota nú?

Við sem nú byggjum þessa jörð höfum flest losnað úr tengslum við lögmál lífsins, alla vega í hinum vestræna hluta heims. Helst eigum við að lifa sem lengst, vera falleg og allt á að vera skemmtilegt. En þótt við virðumst hafa ákveðið að þannig eigi lífið að vera, er fráleitt að þannig sé það í reynd. Við lifum í gerviheimi. Markverður hluti jarðarbúa býr við eða undir hungurmörkum. Umtalsverður hluti jarðarbúa er á flótta undan ofríki eða hamförum. Í samanburði við þau ósköp er veiruváin smávægileg.

Íslendingar hafa ekki alltaf búið svo vel sem nú. Þegar gengið er um Kaupmannahöfn, þann forna höfuðstað Danaveldis, sem var þar til fyrir nær áttatíu árum höfuðborg Íslands, sést vel að ólíkt höfðumst við að forðum, Danir og Íslendingar. Við strituðum og Danir uppskáru. Þeir reistu glæstar hallir á meðan við höfðumst við í torfhúsum. Þetta erfum við þó ekki við þá því sennilega erum við umburðarlynd þrátt fyrir allt.

Við erum því harðgert fólk að upplagi sem hefur barist fyrir öllu því sem okkur hefur hlotnast. Enginn hefur fært okkur neitt.

Líkur eru á að bóluefni, hinn stóri snagi sem við öll höfum hengt okkar hatt á, sé lengra undan en við vonuðum. Það er ekki hægt að slökkva á samfélagi. Við getum lokað börum og við getum lokað skemmtistöðum. En við getum ekki búið við að samfélagi manna sé lokað hér. Það eru vissulega hagsmunir fólgnir í því að spyrna við þegar heilbrigðisvá steðjar að en öllu má ofgera.

Það er alls ekki gert lítið úr þeim langvarandi eftirköstum sem þeir sem veikjast hafa lent í, en það er ekki fjölmennur hópur af þeim rúmlega 2.500 Íslendingum sem hafa sýkst. Og það atriði eitt og sér getur ekki réttlætt allan viðbúnaðinn. Það hefur líka eftirköst að loka samfélagi, fólk missi vinnu, einangri sig.

Sóttvarnayfirvöld hafa margítrekað að hugmyndin um veirulaust samfélag sé óraunhæf og sé ekki markmið aðgerðanna. Við þurfum að taka upp nýja nálgun. Við þurfum að breyta inntaki þess sem nefnt hefur verið að lifa með veirunni. Við þurfum með æðruleysi að halda áfram að lifa.

Í Skarfanesi í Landsveit er minnismerki um Sigríði sem þar bjó á 19. öld. Það slær þá sem þangað koma hversu hún og hennar fólk átti erfitt uppdráttar. Af þeim barnaskara sem hún fæddi, tuttugu og einu barni, komust aðeins fáein á legg. Á minnisvarðanum standa orð sem eftir henni eru höfð: „Ég mundi betur einn sólskinsdag en tíu illviðrisdaga.“