Undan­farin misseri og í raun alveg frá því að sam­komu­tak­mörkunum var af­létt hefur fólk sem skemmtir sér í mið­borg Reykja­víkur um helgar kvartað undan því að eiga erfitt með að komast til síns heima.

Það kemur á ó­vart í hve litlum for­gangi málið hefur verið af hálfu yfir­valda og jafn­vel hve erfitt hefur reynst að fá það viður­kennt. Þegar Frétta­blaðið kannaði málið snemma í vor vildi lög­reglan ekki kannast við að hörgull væri á leigu­bílum. Nætur­röðin í Lækjar­götunni væri ekkert lengri en venju­lega.

Kannski er hluti vandans sá hve margir líta á djammið sjálft sem vanda­mál en ekki full­gildan hluta af fjöl­breyttu mann­lífi borgarinnar. Ef þetta er málið, þarf um­svifa­laust að hefja það til vegs og virðingar, því nætur­lífið í Reykja­vík ætti að vera á heims­mæli­kvarða og gera okkur stolt. Maður er manns gaman og við eigum að fagna því að fólk skemmti sér og njóti lífsins hvert með öðru. Gleðin sjálf er ekki vanda­mál þótt alls konar vesen geti hlotist af henni.

Það þarf að setja sam­göngu­vanda­mál nætur­lífsins í al­gjöran for­gang og finna á því lausn, enda fylgja því marg­vís­legar hættur að stór hópur fólks sitji fastur ein­hvers staðar um miðjar nætur gegn vilja sínum. Fólk tekur til eigin ráða og sest ölvað undir stýri eða upp í bíla með ó­kunnugum. Þau sem kjósa að ráfa heim á leið fót­gangandi geta átt á hættu að deyja úr kulda en hætta á því eykst veru­lega í ölvunar­á­standi á vetrar­nóttum. Þá er stöðug ó­friðar­hætta yfir­vofandi meðal þeirra sem hanga saman í röðinni, mun lengur en þau hafa þol til.

Lausnir á öryggis­brestum í mið­borginni hafa of oft legið í að­gerðum sem eru í­þyngjandi fyrir borgarana. Aukið eftir­lit er oftast svarið. Kallað er eftir fjölgun eftir­lits­mynda­véla og fjöl­mennara liði lög­reglu­manna. Öflugt öryggis­net fyrir djammara felst þó alls ekki síður í góðri þjónustu og öflugum, fjöl­breyttum sam­göngum.

Myndirnar af Birnu Brjáns­dóttur að ganga upp Lauga­veginn í janúar­kuldanum árið 2017 eru greiptar inn í huga okkar allra. Ör­lög hennar settu af stað há­værar kröfur um aukið mynda­véla­eftir­lit í mið­borginni en ættu líka að vera á­minning um hve mikil­vægt er að veita unga fólkinu sem skemmtir sér í mið­borginni góða þjónustu og öruggar sam­göngur.