Sú hugmynd er furðu útbreidd að sjálfsagt sé að leyfa fólki að veltast um drukkið á skemmtistöðum langt fram á morgun, því það sé hluti af mannréttindum þess.

Það segir sig sjálft að fátt vitrænt gerist á börum eftir miðnætti enda verður fólk hvorki gáfaðra né skynsamara eftir því sem það drekkur meira. Drukkin manneskja gerir ýmislegt sem hún hefði aldrei látið hvarfla að sér að gera bláedrú. Í ölæði vinnur fólk skemmdarverk og ræðst á náungann. Á dögunum, eftir að Covid-höftum var aflétt um tíma, var flösku hent inn um rúðu á sjúkrabíl. Ekki getur sú gjörð flokkast sem eðlileg útrás einstaklinga sem höfðu ekki fengið djammskammtinn sinn í nokkurn tíma.

Hér er ekki verið að halda fram harðsvíruðum templarasjónarmiðum. Ekkert er að því að skemmtistaðir séu opnir langt fram á kvöld, en hverjum í ósköpunum datt í hug að það væri skynsamlegt að hafa opið þar til hálf fimm að morgni um helgar? Sú hugmynd hlýtur að hafa komið frá einstaklingum sem sáu fram á að geta grætt á tá og fingri fengi fólk að hella sig fullt á skemmtistöðum á þeim tíma sólarhrings sem hollast er að sofa svefni hinna réttlátu.

Á einum af hinum ótal upplýsingafundum almannavarna vegna Covid var mættur ungur og óþolinmóður blaðamaður, sem virtist upplifa það að verulega væri þrengt að skemmtanalífi hans. Hann spurði sóttvarnalækni: „Hvenær fáum við að fara á djammið?“ Ekki var sérlega mikið um svör hjá hinum prúða og ágæta sóttvarnalækni landsins að þessu sinni. Honum hefur líklega þótt, eins og fleirum, að það væri ekki forgangsmál í heimsfaraldri að flýta fyrir því að æskan kæmist á djammið.

Í nýlegri skoðanakönnun Maskínu kemur fram að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna er hlynntur því að afgreiðslutími skemmtistaða sé styttur. 17,5 prósent eru fremur andvíg hugmyndinni eða mjög andvíg, sem er ótrúlega lág tala. Ungt fólk vill svo frekar halda í langan opnunartíma en það eldra.

Unga fólkið vill vera á djamminu. Það er ekkert einkennilegt. Eldri kynslóðir leituðu í djammið á sínum yngri árum og töldu jafnvel að þar væri sanna lífsfyllingu að finna. Það reyndist blekking ein. Það þýðir þó ekkert fyrir eldri kynslóðir að messa yfir þeim yngri að tíminn á djamminu skilji lítið sem ekkert eftir, nema þá timburmenn. Hver og einn þarf að uppgötva þetta fyrir sjálfan sig. Sumir gera það reyndar aldrei og flýja með reglulegu millibili á barinn í leit að félagsskap. Fólk forgangsraðar hlutum misjafnlega og ekki er hægt að ætlast til að allir séu heima hjá sér á kvöldin að lesa bók og hlusta á Mozart – þótt slíkt sé að sönnu vítamínsprauta fyrir sálarlífið.

Stuðning fólks við styttri opnunartíma skemmtistaða í þessari Maskínu-könnun má hugsanlega tengja að hluta til við áhyggjur um að þeir séu smitbæli fyrir Covid. Þetta er þó örugglega ekki öll skýringin. Líklegast er að þeir sem fylgjandi eru styttri opnunartíma skemmtistaða sjái ekki skynsemina í því að hafa þá opna langt fram á morgun. Enda er fólk ekki að drekka mjólk á barnum.