Á því ári sem samkomutakmarkanir hafa verið í gildi á Íslandi hefur traust landsmanna til hvers kyns valdhafa aukist og hefur í sumum tilvikum ekki mælst meira í áratugi. Lögreglan nýtur mikils trausts, traust til dómstóla vex og traust til ákæruvaldsins. Alþingi hefur meira að segja tekið kipp öllum að óvörum. Þótt það kunni að vera varhugavert að tengja þetta tvennt; mestu almennu skerðingu á mannréttindum á lýðveldistímanum og aukið traust til helstu valdastofnana, er fleira sem bendir til að þarna séu tengsl á milli.

Traust til Svandísar Svavarsdóttur jókst til muna eftir að hún hóf að undirrita reglugerðir um takmarkað ferðafrelsi og nýlegar kannanir sýna að samkomutakmarkanir njóta yfirgnæfandi stuðnings, eða yfir 90% landsmanna. Ef til vill skýrist þetta mikla trúnaðartraust landsmanna til stjórnmálamanna og valdastofnana af því að aðgerðir vegna COVID-19 hafa almennt verið tiltölulega hófsamar hér á landi. Við höfum ekki þurft að hlíta útgöngubanni svo dæmi sé tekið. Þrátt fyrir það hefur okkar gengið nokkuð vel að kljást við og halda faraldrinum niðri. Eðlilegt er að álykta að fólk sé ánægt með hvort tveggja; gott gengi í baráttunni við faraldurinn og hófsamar aðgerðir.

Það breytir ekki því að umburðarlyndið gagnvart þeirri fordæmalausu frelsisskerðingu borgaranna sem gilt hefur í heilt ár er uggvænlega mikið og eðlilegt að fylgismenn mannréttinda hafi af því töluverðar áhyggjur, enda hefðu fáir trúað því fyrir ári að þjóðin myndi taka slíkum mannréttindaskerðingum svo fagnandi sem raun ber vitni.

Það er á engan hátt markmiðið hér að gagnrýna þær sóttvarnaaðgerðir sem nú eru í gildi. Það er stutt eftir og mikils virði að við höldum þetta út. Það er hins vegar að sama skapi mikilvægt að öllum skiljist að þegar þetta er búið, verði þetta í raun og veru búið. Faraldurinn er ekki tækifæri til að herða tökin eða skerða athafnafrelsi fólks til frambúðar. Grípi forsjárhyggjufólk tækifærið í þessu sérkennilega andrúmslofti hlýðni og undirgefni er voðinn vís, jafnvel þótt það líti svo á að um skynsamlegar ráðstafanir sé að ræða. Djammbann er skýrt dæmi.

Þótt réttur unga fólksins til að djamma fram á rauða nótt teljist í hugum margra til léttvægra réttinda, er, þegar nánar er að gáð, um algert grundvallarmál að ræða. Samfélag sem leyfir ekki djamm er ekki frjálst samfélag. Í slíku samfélagi er tjáning ekki óheft, skoðanir ekki frjálsar og viðskiptafrelsi ekki við lýði. Í slíku samfélagi lærir unga kynslóðin undirgefni, kúgun og ótta við yfirvöld. Það mun hafa áhrif á hana langt fram á fullorðinsár og breyta samfélaginu til hins verra um langa framtíð.

Ef okkur er annt um akademískt frelsi fræðimanna, stjórnmálafrelsi, viðskiptafrelsi, kosningarétt og önnur mikilsverð mannréttindi, hleypum við djömmurunum á galeiðuna um leið og það er öruggt og ekki degi síðar. Því þegar þessu er lokið þarf unga kynslóðin að vita og finna í hjarta sér að hún sé frjáls.