Hann er sætur en vissulega skaðlegur heilsufari fólks. Hann er sagður vera meira ávanabindandi en annað hættulegasta fíkniefni heims, kókaín. Á þessa leið hófst umfjöllun Fréttablaðsins í vikunni um sykur.


Fram kom að rannsóknir hafa sýnt að sykur virkjar sömu heilastöðvar og kókaín gerir. Sömu rannsóknir benda til að neysla sykurs sé ávanabindandi og að hún geti valdið til dæmis hjartasjúkdómum, sykursýki og sams konar áhrifum á lifrina og óhófleg áfengisneysla.

Íslendingar eru meðal feitustu þjóða. Viðbúið er að senn komi að skuldadögum. Uppgjörið snertir ekki einungis þá sem glíma við aukakílóin og sjúkdómana, sem tengjast óhófinu, og þeirra fólk. Heilbrigðiskerfið er rekið fyrir skattfé. Þetta snertir alla.

Meðaljóninn í okkar heimshluta brennir um það bil fimmtungi þeirra hitaeininga sem afi hans og amma gerðu í daglegu amstri. Ræktin, fjallgöngur, útihlaup og hreyfing til heilsubótar er ekki talið með. Og þar spilar mataræðið langstærsta rullu og svo hreyfingin.

Í nýlegri skýrslu bresku Barnalæknasamtakanna kemur fram að áttatíu prósent offeitra barna á grunnskólaaldri glíma við offitu fyrir lífstíð. Og líkur eru á að ævi offeitra barna verði áratug styttri en jafnaldra þeirra, sem ekki glíma við offitu.

Síðustu æviárin eru þessu fólki oft erfið. Mikil þyngd dregur úr getu fólks til að hreyfa sig, stunda útivist og hollt líferni. Það kemur í bakið á fólki. Við verðum berskjölduð fyrir kvillum, sem fylgja kyrrsetu. Þyngdin veldur álagi á líkamann, sem fer illa með stoðkerfið. Þannig skerðast lífsgæðin.

Upp úr 1980 fór af stað mikil herferð gegn fitu. Þegar fitan fór út af matseðlinum kom viðbættur sykur í staðinn. Meira fór að bera á unninni matvöru. Því sem náttúran býður var skipt út fyrir matvöru sem maðurinn sjálfur hafði fundið upp og átt við. Sykri var lævíslega bætt í matvörur eins og mjólkurafurðir, sem oft innihalda meiri sykur en súkkulaði. Eru svo seldar sem heilnæmar afurðir. Þannig er komið í bakið á grandalausu fólki.

Varla þarf að leita lengi á Íslandi til að sjá að matarvenjum okkar er stórlega ábótavant. Við hringveginn eru sykraðir gosdrykkir, unnar kjötvörur og sælgæti meira áberandi en einfaldur, hollur matur. Ekki bara hér á landi. Alls staðar mæta okkur stæðurnar af snakki, sælgæti og hvers kyns óhollustu.

En hvað er til ráða? Í umræddri umfjöllun var viðtal við Teit Guðmundsson lækni. Hann benti á að ekki er ljóst hversu mikið magn hver og einn má innbyrða af sykri, svo ekki hljótist skaði af. Gátan sú sé óleyst, en það að draga úr sykurneyslu almennt bæti heilsufar. Við þurfum að sameinast um að feta einstigið milli hófsemi í mat og drykk og hollrar hreyfingar.