Heimsþing kvenleiðtoga fór fram í Reykjavík og á veraldarvefnum í vikunni. Á þinginu kom fram að fjölgun kvenna í leiðtogastöðum undanfarin ár hefði verið svo hæg, að héldi svo fram sem horfir taki 200 ár að ná jöfnum hlutföllum á þjóðþingum. Silvana Koch-Mehrin, stofnandi Samtaka þingkvenna, sagði eina ástæðu hægagangsins vera uppgang popúlismans, svo sem í Bandaríkjunum í forsetatíð Trump, í Brasilíu undir Bolsonaro, á Filippseyjum undir Duterte og víða í Austur-Evrópu. „Í popúlisma ríkir hugmyndafræði hins sterka karlmanns,“ sagði Silvana. „Að svona eigi leiðtogi að líta út.“

Hinn sterki karlmaður er þó ekki eina táknmyndin sem komst í fréttirnar í vikunni. Stórhneyksli skók á dögunum hverfið sem ég bý í hér í London. Ástæðan var pínulítil, allsber kona.

Í Bretlandi eru fleiri styttur af körlum sem heita John, en styttur af konum. Undanfarin ár hafa þarlendar konur reynt að breyta því.

Árið 2018 var í fyrsta sinn reist stytta af konu á Parliament Square í London. Styttan var af Millicent Fawcett, baráttukonu fyrir jafnrétti kynjanna, sem lék lykilhlutverk í að tryggja konum í Bretlandi kosningarétt. Fyrir voru á Parliament Square ellefu styttur af körlum úr stjórnmálasögunni.

Í Wales er sem stendur ekki að finna eina einustu styttu af nafngreindri konu, ókonungborinni, sem uppi var í alvörunni. Á þessu ári mun rísa í miðbæ Cardiff stytta af Betty Campbell, fyrsta svarta skólastjóra Wales, en hún lést árið 2017.

Síðastliðinn þriðjudag stóð til að hér í Islington-hverfi yrði næsti styttu-stórsigurinn unninn. En öðruvísi fór en á horfðist.

Í heilan áratug hefur hópur íbúa staðið fyrir fjársöfnun svo reisa mætti styttu af Mary Wollstonecraft. Wollstonecraft er gjarnan sögð móðir femínismans. Hún fæddist í London árið 1759. Fjölskylda hennar var vel stæð en drykkfelldur og ofbeldisfullur faðir hennar glopraði niður fjölskylduauðnum. Wollstonecraft hlaut enga formlega menntun. Hún horfði hins vegar öfundaraugum upp á bróður sinn ganga menntaveginn og ákvað að mennta sig sjálf. Aðeins 25 ára opnaði hún stúlknaskóla í Newington Green, þar sem reisa átti styttuna af henni.

Styttan var afhjúpuð í beinni útsendingu í gegnum rafrænt streymi vegna COVID-samkomutakmarkana. Samstundis runnu tvær grímur á ákafa áhorfendur. Styttan var ekki af Mary Wollstonecraft heldur örsmárri, ónafngreindri, kviknakinni konu, með mjótt mitti og sperrt brjóst. Gagnrýnin lét ekki á sér standa. „Ekkert heiðrar móður femínismans betur en sexí, allsber skvísa,“ tísti Twitter. „Hversu margir af okkar fremstu karlkynsrithöfundum hafa verið heiðraðir, allsberir á styttuformi? Maður minnist þess ekki að hafa séð Charles Dickens á sprellanum.“

Við og átjánda öldin

Mary Wollstonecraft lést aðeins 38 ára að aldri í kjölfar barnsburðar. Dóttir hennar lifði, en hún var Mary Shelley, höfundur Frankenstein. Í einu frægasta verki Wollstonecraft, Til varnar réttindum konunnar, færði hún rök fyrir því að konur væru vitsmunalegir jafningjar karla og hvatti til þess að konur yrðu metnar af andlegu atgervi en ekki eftir útliti.

Aðeins tíu prósent af styttum í London eru af konum. Flestar eru þær af nafnlausum líkneskjum, léttklæddum englum, mæðrum, friði, réttlæti, hálfnöktum skvísum.

Táknmyndin um hinn sterka karlmann er ekki eina táknmyndin sem ógnar framgangi kvenna. Styttan af Mary Wollstonecraft er af táknmyndinni sem Wollstonecraft barðist svo hatrammlega gegn; konunni sem er ekkert nema ytra lag, yfirborð, nafnlaus og abstrakt brons Barbie. 223 árum eftir andlát „fyrsta femínistans“ virðast skilaboð Mary Wollstonecraft eiga jafnbrýnt erindi við samtímann og þau áttu við samtíð hennar, átjándu öldina.