Árið 2007 opnaði ég reikning á Facebook. Það var strax mikið fjör. Þannig var maður sífellt að pota í fólk, spila leiki, læka og kommenta. En það langskemmtilegasta var að tengja aftur við fólk sem maður hafði þekkt og átt góð samskipti við í fortíð. Barnslegt sakleysi Facebook breyttist samt hratt með hækkandi aldri. Þar sem keypt efni fékk sífellt meira vægi.

Núna, 15 árum frá því að ég fyrst fór inn á Facebook, er þessi miðill rétt eins flestir sem náð hafa 15 árum orðinn hundleiðinlegur. Vinir manns sem áður gátu skrifað skemmtilegar færslur og kommentuðu hjá manni og settu inn heilu myndaalbúmin frá ferðalögum halda sér nú til hlés og gefa kannski eitt læk á mánuði. Áhugi fólks á miðlinum fer að mér sýnist sífellt minnkandi í sambandi við sífellt fleiri kostaðar færslur.

Facebook minnir mig í dag á sjónvarpsdagskrána sem borin var út í öll hús fyrir 30 árum. Það litla sem var áhugavert þar var falið innan um endalausar auglýsingar. Facebook hefur brugðist við þessu með því að halda að okkur efni þar sem aðilar rífast svo að blóðið rennur. Enda fátt skemmtilegra en að horfa á fullorðið fólk öskra á hvert annað.

Í dag er staðan þannig að eina skiptið sem mér finnst gaman inni á Facebook er þegar maður á afmæli. Þar fær maður fullt af kveðjum frá fólki sem flest hafði ekki hugmynd um að maður ætti afmæli. Enda er það þannig að það fyrsta sem Facebook hvetur mig til að gera á hverjum degi er að senda afmælisbarni dagsins kveðju.

Hvað þessi skrif varðar þá mun ég deila þessum pistli á Facebook þar sem hann mun fá nokkur læk og sniðugur frændi minn kommentar eitthvað tvírætt.