Því fylgir jafnan alveg sérstök tegund af skömm að skila bókum of seint á bókasafn. Það er eitthvað við það að mæta á þessa kyrrlátu staði og horfa framan í virðulega starfsmenn safnsins, sem taka manni í fyrstu með opnum hug, reiðubúnir til leiðsagnar um frumskóga Dewey-kerfisins en svo þykknar smám saman yfir þegar raunverulegt tilefni heimsóknarinnar kemur í ljós.

Ég er nefnilega ekki kominn til að fræðast, heldur viðurkenna sök. Ferlið er alvarlegt og þungt og varnir mínar eru engar. Þetta er ekki eins og í gamla daga þegar sjoppukallinn áætlaði á mann einhverja málamyndaupphæð fyrir að skila spólu of seint, sem féll svo jafnharðan niður ef maður keypti eitthvað af honum. Hér eru engir dílar í boði. Ég játa og við tekur dómsathöfn til að meta umfang brotsins þar sem hver bók er skoðuð gaumgæfilega, skönnuð og hvíti miðinn í vasanum aftan á kápunni kannaður til samræmis. Sektirnar hrúgast upp með hverri bókinni.

Vonbrigðin eru ekki síst persónuleg. Upphaflega hljómaði verkefnið svo einfalt – 30 dagar til að lesa nokkrar bækur og skila þeim. Og ef það dugar ekki er hægt að framlengja útlánið með lítilli fyrirhöfn. Ekkert af þessu gekk eftir. Bókunum er skilað meira og minna ólesnum. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því að ég var valinn lestrarhestur 5-A í Melaskóla veturinn 1991-92.

Að lokinni málsmeðferð liggur niðurstaða fyrir. Dómsorð er lesið í heyranda hljóði. Sektin er kannski ekki há en skömmin lifir. Á leiðinni út örlar fyrir létti yfir að þetta sé að baki. Ég hugsa með mér að aldrei aftur mun ég skila bók of seint. Sennilega ekki, að minnsta kosti.