Ég veit ekki hvort það er til marks um aukinn pirring í samfélaginu að skákmenn séu farnir að lenda í handalögmálum eða hvort við séum loksins að átta okkur á hvers konar töffarar skákmenn eru í raun og veru. Hvað þýðir Sikileyjarvörn í alvöru? Ég vil varla vita það.

Auðvitað er margt til að pirra sig á þessa dagana. Það eru ekki nema nokkrar vikur síðan það var sól upp á dag og enginn með smit í landinu. Nú hættir ekki að rigna og kórónaveiran er komin aftur.

Til að innsigla hvað veiran er mikill óvinur þjóðarinnar valdi hún að koma um verslunarmannahelgina, þegar Íslendingar eiga stjórnarskrárvarinn rétt til þess að öskursyngja í návígi. Og rétt eins og alvöru illmenni deilir veiran og drottnar, stillir okkur upp við vegg og lætur okkur taka afstöðu til alls konar erfiðra álitaefna.

Á að loka landinu en missa ferðamennina? Eða hafa allt opið til að halda atvinnulífinu gangandi? Veiran virðist sjá við öllu. Nýsjálendingar lokuðu landinu en fengu samt veiruna aftur í vikunni. Í Svíþjóð, sem lokaði nánast engu, er hagkerfið hins vegar í niðursveiflu rétt eins og annars staðar. Á kannski að fara blandaða leið?

Ég veit hreinlega ekki hvort við séum yfirhöfuð í stakk búin til að svara svona stórum og flóknum spurningum. Við getum ekki sinni fundið út úr því hvaðan sónninn á Akureyri kemur. Ég sá í fréttum að starfsmaður heilbrigðiseftirlitsins fyrir norðan er kominn í málið. Ég hlakka mikið til þegar þessi norðlenski Hercule Poirot boðar alla bæjarbúa saman í lokaatriðinu og upplýsir málið. Þegar það er frá verða okkur allir vegir færir.