Ég og makinn eignuðumst börn seint í þeim tímaramma sem okkur er ætlaður til fjölgunar.

Einn af kostum þess að eiga börn á gamals aldri er að systur mínar höfðu lokið sínum barneignum. Hvað var nú gott við það? Jú, þær deildu með mér barnadótinu sínu. Þvílík gjöf! Því höfum við nánast ekkert keypt heldur nýtt það sem nú þegar er til í fjölskyldunni og í heiminum. Óþarfi að framleiða eða kaupa eitthvað sem þegar er til.

Fyrir nokkrum árum hefði mér ekki dottið í hug að selja eða kaupa notað. Viðhorfið hefur farið í hring og er komið nær fyrri kynslóðum.

Í heiminum eru takmarkaðar auðlindir og orka. Hvers vegna ættum við ekki að nota það sem þegar er til? Hvers vegna að kaupa flík á barn sitt aðeins til að geta valið litinn eða mynstrið þegar til er flík í góðu lagi? Það er sóun á sameiginlegum auðlindum og óþarfa eyðsla.

Sem betur fer hugsa margir á þennan hátt í dag. Sölusíður með notaðar vörur eru víða og loppumarkaðir spretta upp. Annað barnið mitt situr í barnastól frá fyrrverandi ráðherra en hitt í barnastól frá fyrrverandi nágranna.

Það er ákveðin fegurð falin í því þegar hlutir ganga frá konu til konu, barni til barns eða manni til manns. Það sem er notað af einum er nýtt af og nýtt fyrir öðrum.

Höldum deilihagkerfinu gangandi, förum sparlega og vel með sameiginlegar auðlindir. Nýtum loppumarkaði!

Í lokin vil ég segja takk við þá sem hafa deilt með mér, sérstaklega við systur mínar!