Endurkoma Guðmundar Árna Stefánssonar í hafnfirsk stjórnmál eftir langa veru í sendiráðum Íslands á erlendri grundu getur vart talist annað en hugljómun fyrir aðra flokka en Samfylkingu, svo sem Sjálfstæðismenn í Reykjavík sem gætu farið að dusta rykið af Davíð Oddssyni, en síðast þegar hann bauð sig fram í Reykjavík sópaði hann til sín 60 prósenta fylgi og rúllaði borginni upp með þvílíkum tilþrifum að hann gat ekki annað en hellt sér í landsmálin ári seinna eða svo.

Árni?

Til vara má auðvitað hugsa til Árna Sigfússonar sem var einn af fjölmörgum sporgöngumönnum Davíðs á stóli borgarstjóra og líklega er heldur ekki algerlega galið að nefna Hönnu Birnu Kristjánsdóttur á nafn, en ef til vill er hún þó full ung til að tilheyra þessum hópi.

En þá er hægt að stinga upp á Markúsi Erni Antonssyni, enn einum fyrrverandi borgarstjóra úr röðum Sjálfstæðismanna, til þrautavara, vönum manni á norðurbakka Tjarnarinnar.

Og hafi menn einhverjar áhyggjur af því að Markús Örn sé sestur helst til huggulega í helgan stein þá skal nefnt að hann er yngri en Joe Biden sem nú stýrir heilu þjóðríki handan Atlantsála.