Um helgina las ég áhugavert viðtal sem birtist í Heimildinni 1. febrúar þar sem rætt er við læknana Theódór Skúla Sigurðsson og Kristínu Sigurðardóttur. Viðtalið fjallar um kulnun og streitu. Eitt af því sem kemur fram í viðtalinu er að Theódór reyndi í sífellu að finna nýjar leiðir til að mæta því sívaxandi álagi sem er á heilbrigðisstarfsfólk. Theódór eins og við flest vill geta sinnt öllum sínum sjúklingum eins og best verður á kosið. Það var við ofurefli að etja, svolítið eins og barátta Davíðs við Golíat.

Ég tel að kollegar mínir á heilsugæslunni tengi margir við þetta. Verkefnin eru sívaxandi, gríðarlegt álag og skortur á mannafla. Við sem störfum sem sálfræðingar erum einnig í sömu stöðu. Við vitum að við getum hjálpað mörgum en vegna kerfislægs vanda náum við ekki til allra sem þurfa sálfræðimeðferð og stundum getum við aðeins boðið fólki hluta þess sem það þarf. Það tekur á.

Hvernig er hægt að takast á við þessa áskorun? Kannski liggur lausnin í því sem kemur fram í greininni að viðurkenna vanmátt sinn og líta inn á við. Heilbrigðisstarfsfólk þarf líka að geta passað upp á sjálft sig því ef fólk brennur út kemur það á endanum sömuleiðis niður á notendum þjónustunnar. Mikilvægt er að viðurkenna vanmátt sinn, hlúa að eigin þörfum og halda streitu í lágmarki til að tryggja eigin heilsu og starfsorku.

Þegar hugsað er um söguna af Davíð og Golíat má einnig velta fyrir sér stöðunni á íslenskum vinnumarkaði. Ætli Davíð hafi ekki Golíat á endanum?