Stöðuuppfærsla móður sem sagði frá hrottalegu einelti sem ungur sonur hennar hefur lifað við vakti mikla athygli í síðustu viku. Þar lýsti hún því hvernig ellefu ára drengurinn hefur mætt úrræðaleysi grunnskóla síns þar sem hann hefur orðið fyrir bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi af hendi jafnaldra sinna.

Frásögn móðurinnar varð að frétt á flestum miðlum og til þess að drengurinn fékk hvetjandi skilaboð frá ókunnugum einstaklingum sem hann lítur upp til, skólinn sendi frá sér yfirlýsingu og jafnvel menntamálaráðherra hafði samband. Sami ráðherra hefur nú gefið það út að aukin áhersla verði lögð á sérstakt fagráð sem starfrækt hefur verið til að taka á eineltismálum sem ekki leysast innan skóla.

Það er auðvitað vel og nauðsynlegt að tekið sé á málum og þá mikið fyrr en gert var í þessu tilviki. Þessi drengur er hættur í hverfisskólanum sínum og foreldrar hans munu dag hvern keyra hann og sækja í skóla utan hverfis. Það er veruleiki sem fleiri fórnarlömb eineltis lifa við, gerendur sitja sem fastast en þolandinn flýr.

Einelti hefur kannski alltaf verið til í einhverri mynd og flest eigum við einhverjar minningar um slíka hegðun frá okkar skólagöngu. Eineltisáætlanir og fagráð eru af hinu góða og umræða um málefnið er mikilvæg en mikilvægast af öllu er það sem gerist heima fyrir.

Börn sem fá góðan stuðning heima fyrir og er kennd virðing fyrir öðrum einstaklingum pína ekki samferðamenn sína. Landsliðsmenn í fótbolta, poppstjörnur og ráðherrar hringdu í umræddan dreng og móður hans. Foreldrar þeirra barna sem beitt höfðu hann andlegu og líkamlegu ofbeldi að því marki að hann, ellefu ára drenginn, langaði ekki lengur að lifa, höfðu aftur á móti fáir samband.

Eigum við svona erfitt með að horfast í augu við vankanta barna okkar eða nennum við því bara ekki? Á meðan barnið þitt er enn barn, berð þú ábyrgð á framkomu þess og ungu fólki þarf að leiðbeina á meðan það fótar sig í tilverunni.

Einelti er dauðans alvara. Bæði börn og fullorðið fólk hafa bundið enda á líf sitt vegna eineltis. Það er nefnilega staðreynd að þetta kerfisbundna niðurrif, sem því miður viðgengst enn meðal barna, hefur neikvæð áhrif á sjálfsmynd einstaklinga og margir hverjir burðast með slíkar afleiðingar alla sína tíð.

Hvert og eitt foreldri þarf að horfa í eigin barm og spyrja sig: „Er möguleiki að barnið mitt sé gerandi?“ „Börn geta verið svo grimm!“ er setning sem allt of oft heyrist og slæm framkoma í garð náungans er þá afskrifuð með henni, eins og það sé einhvers konar náttúrulögmál að óharðnaðir einstaklingar píni hverjir aðra. Ég einfaldlega neita að vera sammála slíkum fullyrðingum. Verum vakandi fyrir framkomu barna okkar í garð náungans, leiðbeinum þeim og styðjum og sýnum þeim gott fordæmi í samskiptum. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Það er setning sem á við rök að styðjast.

Ræddu málið við barnið þitt.