Það er fátt sem vinnur með okkur þessa dagana. Samtals eru um 9.600 manns á atvinnuleysisskrá og hefur fjöldinn ekki verið meiri frá því í maí 2012. Atvinnuleysi mælist 4,8 prósent og fjölgaði þeim sem voru án atvinnu um rúmlega þúsund í janúar. Það er sambærilegt við það að milljón manns hefðu misst vinnuna í Bandaríkjunum á aðeins einum mánuði. Fátt bendir til annars en að ástandið eigi eftir að versna enn frekar áður en það skánar, en leiðandi hagvísir Analytica, sem gefur vísbendingar um umsvif í hagkerfinu að sex mánuðum liðnum, gefur til kynna talsverðar líkur á stöðnun eða efnahagssamdrætti.

Atvinnuvegafjárfesting er að skreppa hratt saman samtímis versnandi fjármálalegum skilyrðum fyrirtækja. Hætt er við að atvinnuleysi haldi áfram að síga upp á við en fyrirtæki berjast nú í bökkum, einkum lítil og meðalstór sem eru verðtakar á sínum mörkuðum, og við mörgum blasir fátt annað en gjaldþrot á næstunni. Það kann að setja af stað hættulegan spíral. Þessi veruleiki er öllum augljós sem kjósa að setja ekki kíkinn fyrir blinda augað en engu að síður er það mat sumra verkalýðsfélaga að nú sé rétti tíminn til að ganga af göflunum í óumsemjanlegum kröfum sínum á hendur hinu opinbera.

Seðlabankinn hefur brugðist við með lækkun vaxta um 1,75 prósentur á innan við ári. Að óbreyttu hrannast enn upp vísbendingar sem kalla á frekari slökun í aðhaldi peningastefnunnar – af hverju ættu fjármagnseigendur að njóta öruggrar eins prósents raunávöxtunar við þessar aðstæður? – og því einsýnt að vaxtalækkunarferlinu er ekki lokið. Staðan er hins vegar sú að slíkar lækkanir skila litlu einar sér. Vandinn, sem er í senn kerfislægur og heimatilbúinn, er að miðlunarferlið er ekki að virka sem skyldi og því hafa fyrirtæki ekki notið ávinnings lægri vaxta. Verði ekkert að gert, meðal annars með ráðstöfunum er lúta að minni eiginfjárkröfum á banka, lækkun bindiskyldu, lægra tryggingagjaldi og stórauknum fjárfestingum ríkisins, verður niðursveiflan dýpri og langvinnari – algjörlega að óþörfu enda hafa stjórnvöld það í hendi sér að snúa við þessari stöðu.

Ólíkt flestum öðrum ríkjum geta íslensk stjórnvöld gripið til fjölmargra aðgerða, á grunni sterkar stöðu þjóðarbúsins, til að skapa forsendur fyrir efnahagslegri viðspyrnu

Er ríkisstjórnin sofandi? Svo hefur virst að undanförnu en það kann að breytast. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur með afgerandi hætti nú lýst því yfir að nauðsynlegt sé að bregðast hratt við versnandi efnahagshorfum. Þannig eigi bæði að flýta og auka umfang þeirrar fjárfestingar sem áður hafði verið boðuð í fjármálaáætlun ríkisins, að minnsta kosti um fimmtíu milljarða, og eins sé mikilvægt að lækka eiginfjárauka á viðskiptabankana til að auka útlánagetu þeirra. Taka þarf ákvarðanir um slíkar ráðstafanir, ásamt fleirum, á allra næstu vikum.

Tíminn vinnur ekki með okkur. Ný fjármálastöðugleikanefnd sem seðlabankastjóri fer fyrir hlýtur þannig að breyta um kúrs og snúa við fyrri ákvörðunum sem teknar voru á vettvangi kerfisáhættunefndar um að þrengja enn að bankakerfinu með hækkun sveiflujöfnunaraukans ofan á eiginfjárkröfur sem fyrir voru þær hæstu í Evrópu. Ólíkt flestum öðrum ríkjum geta íslensk stjórnvöld, ríkisstjórnin og Seðlabankinn, gripið til fjölmargra aðgerða, á grunni sterkar stöðu þjóðarbúsins, til að skapa forsendur fyrir efnahagslegri viðspyrnu. Verði það tækifæri ekki nýtt þá geta menn bara slökkt ljósin.