Í dag tíðkast að skerpa á öllum víglínum og skilgreina andstæðinga sem víðast. Þetta er vinnandi fólk gegn fyrirtækjunum, úthverfin gegn miðbænum, neysla gegn loftslagi. Allir eru með sinn málstað, algóritminn tryggir eilífan samhljóm skoðana og við þurfum að lágmarki fimmtán stjórnmálaflokka því þeir verða jú að tala fyrir nákvæmlega sömu skoðunum og félagsmenn sínir og mega undir engum kringumstæðum gefa afslátt. Grá svæði hafa verið upprætt, brýr eru ekki byggðar lengur og málamiðlunum hefur verið aflýst.

Samband okkar við kapítalismann markast af þessu. Hann þykir hvorki woke né hluti af lausninni, hann er ekki í köflóttri skyrtu og ekki með eigið hlaðvarp. Ég las tvít um daginn þar sem kapítalismanum var slaufað rækilega sem vonlausri hugmyndafræði. Samhengið var samt áhugavert, tvítið birtist á samfélagsmiðli í eigu bandarísks einkafyrirtækis og var skrifað á snjallsíma sem einkafyrirtæki framleiðir. Höfundurinn, sem aðhyllist bíllausan lífsstíl, ferðast um á rafmagnshlaupahjóli, borgar farið með appi og situr á kaffihúsum. Allt forboðnir ávextir hugmyndafræðinnar sem hann þolir ekki. Opinberlega að minnsta kosti.

Kapítalisminn er margslungnara fyrirbæri en bara stórfyrirtækið sem lúrir á aflandseyjum. Hann er líka sköpunarkrafturinn sem býr til vörur og valkosti sem markaðurinn velur. Hann er aflið sem gerir flókna og kostnaðarsama hluti viðráðanlega og neytendavæna, hann er frumkvöðullinn sem dettur niður á nýja lausn og einyrkinn sem lætur flakka og stofnar lítið fyrirtæki.

Þó að það hljómi vel og gefi læk að afskrifa kapítalismann þá er hann hluti af þessu öllu saman, rétt eins og samkenndin, velferðarkerfið og öryggisnetið.