Fortíð okkar skráða í sögu þarf að halda á lofti og túlkun á reynslu kynslóðanna og framgöngu forystumanna lærdómsrík. Viðbrögð þjóða við nýjum aðstæðum eða áskorunum helgast af reynslu kynslóða liðinna alda. Við endurtökum keimlík viðbrögð við nýjar og breyttar aðstæður og uppskerum eftir því. Það er því gagnlegt að grannskoða og endurmeta atburði sem skiptu sköpun fyrir framtíð þjóðarinnar. Einn af þeim viðburðum var Siðbótin (um 1550) og þau umskipti sem þá urðu á kjörum þjóðarinnar. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sendi nýverið frá sér bók um Uppreisn Jóns Arasonar biskups. Jón er þar sýndur í nokkuð nýju ljósi sem uppreisnarmaður gegn dönskum konungi – ekki bara gegn Siðbótinni. Það minnir okkur á að mannlegt eðli og togstreita um völd og áhrif er söm og jöfn, þótt aldafar og efnahagur breytist.

Einokun sigrar

Jón Arason notaði andstöðu sína gegn siðbótinni til að efla völd sín í landinu. Hann hafði séð að Hamborgarkaupmenn buðu landsmönnum fjölbreyttari, betri og ódýrari vöru en þeir voru vanir að fá frá þeim dönsku. Þessi viðskipti rýrðu tekjur danskra kaupmanna sem og áhrif kóngsins. Biskup lagðist því á sveif með Hamborgarkaupmönnum. Þessu vildi kóngsi ekki una og hóf að stugga við og hrekja þá þýsku frá verslun við Íslendinga, þótt vissulega hefðu þeir síðarnefndu mikinn hagnað af frjálsari viðskiptum einkum við aðrar þjóðir. Kóngurinn mat stöðu sína svo, að til lengdar fengi hann meiri pólitískan styrk frá dönskum kaupmönnum en Hamborgurum. Þá var allt í lagi að fórna hagsmunum Íslendinga, þeir áttu sér fáa talsmenn hvað þá valdsmenn, nema kannski Jón biskup. Eins og svo oft vill verða um menn sem ekki kunna þau handabrögð sem þeir þurfa að beita á úrslitastund, spilaði biskup rassinn úr buxunum og var hálshöggvinn. Sú niðurstaða bókarinnar að ásókn í völd fremur en kórréttur átrúnaður hafi rekið biskup áfram, er trúverðug. Þegar búið er að ryðja biskupi úr vegi af hendir kóngur dönskum kaupmönnum einokunarvald yfir allri verslun á Íslandi og leiðir þar með miklar, langvarandi hörmungar yfir þjóðina. Einkasala, í hverri mynd sem er, bitnar undantekningarlaust á kaupendum. Hann fórnaði afkomu og velferð heillar þjóðar fyrir hagsmuni fámennrar en harðsnúinnar kaupmannaklíku í höfuðborg sinni um leið og hann treysti eigin völd. Kannast einhverjir við sambærilegt ráðslag á okkar tímum ?

Hliðstæður tímanna

Fyrrnefnd bók á erindi til þeirra sem byggja Ísland um þessar mundir. Þótt enginn kóngur skipi okkur lengur fyrir verkum og viðskipti séu að miklu leyti frjáls, þá búum við enn við leifar af gömlu einokuninni á viðskiptum með landbúnaðarafurðir, mikilvægustu nauðsynjavörur landsmanna. Það eru þessar vörur sem ákvarða að miklu leyti af komu fátæks fólks. Pólitískir bústjórar, sem eftir fullveldistökuna tóku við hlutverki kóngsins, hafa fetað dyggilega í fótspor hans. Hliðstæðan er sláandi. Jónar Arasynir nútímans eru gerðir áhrifalitlir á gang meginmála, með því að tryggja að fjöldi þingmanna þeirra verði sjálfkrafa færri en „kóngsmanna“ sem styðjast vilja við einokun og fákeppni, þegar þeim hentar. Jón biskup tapaði einnig baráttu sinni vegna liðsmunar á úrslitastund. Landfræðileg mismunun er innbyggð í okkar kosningakerfi. En það eru f leiri sögulegar samsvaranir sem bók seðlabankastjóra opinberar. Kóngur sló eign sinni á, og sölsaði undir sig, öf lugustu útróðrajarðir á Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum. Þannig tryggði hann sér einkaráð yfir ríkustu auðlind landsins og arðrændi hana miskunnarlaust. Landsmenn seldu kóngsmönnum þar að auki eigin afla á nauðungarverði. Auðlindarentan svokallaða eða verðmætaaukinn af fisksölunni, lenti í fjárhirslum konungs. Hún fór í stríðsrekstur og uppbyggingu Kaupmannahafnar. Ef við skiptum kóngi út fyrir útgerðarmenn, sem hafa ekki ósvipuð réttindi yfir sjávarauðlindinni nú og hann hafði, þá, blasir við sama munstur. Þeir hafa einkarétt á nýtingu sjávarauðlindarinnar án þess að greiða auðlindagjald fyrir. Þeir verða að vísu að semja við sjómenn um aflahlut, en greiða aðeins málamyndagjald til ríkisins. Munur er þó á. Kóngsi taldi sig eiga fiskimiðin, meðan íslensk lög segja að sjávarauðlindin sé í eigu þjóðarinnar. Þannig renna árlega tugir milljarða í fjárhirslur útgerðarmanna, sem nota þá meðal annars til að kaupa upp atvinnurekstur og fyrirtæki innanlands . Vel er þekkt, einkum í olíuríkum löndum, að handhafar þjóðarauðlinda slái eign sinni einnig á ríkið sjálft. Ef við höldum áfram óbreyttri, gjaldfrjálsri afhendingu dýrmætustu auðlindar þjóðarinnar mun eins fara fyrir okkur.