Elskan, verður þú heima til að taka á móti sendingu því það var tekið fram skýrum stöfum að fullorðinn þyrfti að kvitta?” spurði maðurinn minn. Í sendingunni var írsk gintegund sem hann hafði smakkað í einhverju fjallahéraði og látið sig dreyma um síðan.

Ég rétt brá mér frá og þegar ég kom heim var sendingin komin. Sextán ára unglingurinn var einn heima og hafði tekið á móti gininu! Hann var ekki spurður um skilríki.

Nú erum við komin með nokkra reynslu af að setja ávanabindandi efni í hendurnar á einkasöluaðilum. Niðurstaðan er sú að Neytendastofa hefur varla undan að uppræta ólöglegan styrkleika af nikótínvörum sem geta verið skaðlegar börnum og unglingum.

Miðað við höfðatölu er talið að um 60.000 Íslendingar glími við áfengisvanda og af þeim leiti 22.000 sér aðstoðar, samkvæmt SÁÁ. Þá er ótalin þjáning af völdum eymdar, ofbeldis, lögbrota, veikindadaga, lifrarsjúkdóma, krabbameina og annarra sjúkdóma sem rekja má til áfengisneyslu.

Ef vínmenning er til, þá er henni lýst hér að ofan í hnotskurn.

Sumir þingmenn virðast svífa um í eilífum dansi með Dionysos, víngoðinu sem jafnan er nefndur goð óskynsemi og brjálæði. Þegar ein áfengislög eru slegin út af borðinu þá er bryddað upp á nýjum lögum og danssporum. Ætla þeir að dansa þar til áfengi flæðir yfir þjóðina og dregur úr henni alla dómgreind?

Undir bergmáli fjölmiðlaumræðu um vanda heilbrigðiskerfisins hvíslar rödd Apollo, goð skynsemi og lækninga sem leggur vernd yfir ungdóminn, að tillagan um að rýmka til í sölu áfengis sé ekki það sem við þurfum á að halda núna.

Dansinn við Dionysos er orðinn þreytandi. Ég vil sjá næstu spor tekin í átt að bættri lýðheilsu.