Fréttir eru flugur. Í ljóðinu „Dagblaðið“ frá árinu 1785 líkir enska skáldið George Crabbe fréttum við örstutta ævi dægurflugunnar sem lifir aðeins einn dag.

Tilvist á tímum COVID er ekki ósvipuð. Hver dagur er lífshlaup, andleg ævi sem verður til úr fyrirsögnum fjölmiðlanna sem bíða okkur þegar við vöknum. Verður dagurinn bjartur eða grár? Það ræðst af heitum ráðamanna, spádómum vísindanna, opnunum, lokunum, smittölum, vonum og vonbrigðum.

Ekki er langt síðan stjórnmálamenn hér í Bretlandi þar sem ég bý báðu fólk um að fresta jólunum fram til páska. Ef við yrðum við þeirri bón biði okkar eðlilegt ástand í apríl, tvöfaldur fögnuður í faðmi vina og ættingja; hátíð frelsarans yrði hátíð frelsisins. Uppátækjasamt athafnafólk tók að framleiða páskatré og páskakransa svo sameina mætti hátíðirnar tvær. En í stað þess að nú gangi í garð tvær hátíðir renna tvær grímur á Breta, sem byrjaðir eru að skreyta páskatrén sín. Ekki einn einasti gestur mun fá að berja dýrðina augum. Samfélagið er enn í allsherjar sóttkví.

Við sveiflumst með fyrirsögnunum eins og strá í vindi. Í Bretlandi leggja stjórnvöld drög að því að framlengja bann við ferðalögum til útlanda langt fram á sumar. Sérfræðingar spá grímunotkun næstu árin. Þriðja bylgjan rís í Evrópu, sú fjórða á Íslandi. Vonin um sumarfrí í útlöndum á meðan andlitsgríman safnar ryki á hillu heima fyrir virðist að engu orðin. Bjartsýni sem fylgdi í kjölfar frétta af bóluefnum víkur nú fyrir bölmóði.

Það er erfitt að finna jafnvægi í hviðum fyrirsagna, hvað þá gleði í fjötrum sóttvarnareglna. Breski gamanleikarinn Michael Palin, sem margir þekkja úr breska grínhópnum Monty Python, réði löndum sínum heilt í viðtali. Palin, sem er 77 ára, sagðist nýverið hafa fundið lykilinn að hamingjunni: Hrifnæmi. „Þegar ég var yngri fannst mér dagarnir líða án þess að nokkuð markvert gerðist,“ sagði Palin. „En smám saman uppgötvaði ég að það var undir mér sjálfum komið að fá eitthvað út úr dögunum, út úr lífinu.“ Palin segist reyna að bregðast við því sem verður á vegi hans af hlýju, hvort sem um ræðir útsýni, lagstúf, málverk eða símtal frá vini. Hann segist ekki leyfa sér að hugsa „æ, mér leiðist þetta“ eða „æ, ég hef séð þetta allt saman áður.“

Ný rannsókn vísindafólks við Kaliforníuháskóla styður kenningu Palins um að hrifnæmi stuðli að hamingju. Helmingi þátttakenda rannsóknarinnar var gert að fara vikulega í göngutúr. Hinum helmingnum var gert að fara í göngutúr en jafnframt svipast um eftir einhverju á göngunni sem vekti með þeim hrifningu; blómum, byggingum, skýjum. Eftir átta vikur bjó síðari hópurinn yfir meiri jákvæðni, samkennd og þakklæti en sá fyrri.

Fyrirsagnir og sálarsveiflur

Samfélaginu hefur verið skellt í lás. En þótt efnisleg veröld okkar minnki getum við leyft hugum okkar að stækka.

Breski heimspekingurinn Bertrand Russell fann „leyndarmálið bak við hamingjuna“ tæpri öld á undan Michael Palin. „Leyfðu áhuganum að ná yfir víðan völl og mættu hlutum og einstaklingum sem vekja áhuga þinn af hlýju frekar en úlfúð,“ skrifaði Russell.

Dægurflugan lifir stutt. Augnablikið sem henni er gefið einkennist hins vegar af ákafa; dægurflugan ver bróðurparti ævi sinnar dansandi.

Á morgun rennur upp nýr dagur, ný andleg ævi, sprottin upp úr nýjum fyrirsögnum með tilheyrandi sálarsveiflum. En ef marka má Palin og Russell veltur hamingjan ekki á raunstærð tilverunnar heldur sjónarhorninu.

Hrífumst. Dönsum inn í daginn, þótt ekki sé nema á náttfötunum heima, með augun opin, tilbúin að falla í stafi yfir öllu því smáa sem vakið getur lotningu ef við aðeins mætum tilverunni af hlýju og áhuga. Því það er ekki aðeins líf dægurflugunnar sem er stutt.