Dagur múrmeldýrsins kom snemma í ár þegar jafnaðarfólk kom saman á Óðinstorgi, bankaði þrisvar og dró Dag B. Eggertsson úr híði sínu svipað og íbúar Punxsutawney í Pennsylvaníu gera 2. febrúar ár hvert til þess að fá veðurspá byggða á því hvort múrmeldýrið Phil sjái skugga eins og Dagur sá sinn og mun því bjóða sig fram að nýju.

Þar með er þegar búið að hlaða í spennufall ársins þar sem Dagur sagði í viðtali við Fréttablaðið fyrir jól að hann væri bara hálfnaður með það sem hann ætlaði að gera í borginni. Hvort skuggi Dags hafi hingað til fallið á metnaðinn eða framkvæmdagetuna fylgdi þó ekki niðurstöðu gærdagsins.

Djúpa laugin

Íslensku sófasérfræðingarnir í Covid-málum eru í krafti nánast yfirnáttúrulegrar þekkingar og áður óþekktrar dýptar í innsæi komnir í úrvalsdeild eftir að umræðan er farin að hverfast um hvort skynsamlegt sé að skima 28 til 37 ára sem fengu Janssen og síðan Pfizer ef þeir hafa ekki sýnt einkenni í 13 klukkustundir eða hvort það dugi að taka hraðpróf.

Til einföldunar er þó löngu búið að skipta almenningi í sótsvarta og elítu þannig að þeir sem ætla í Þjóðleikhúsið fara í hraðpróf en ekki þeir sem ætla að sjá Spider-Man.