Frídagur verslunarmanna. Dagur sem flestir landsmenn kenna við stærstu fríhelgi ársins og njóta ýmist utan- eða innanbæjar til skemmtunar og afþreyingar.

Eftir gríðarlega erfið og krefjandi ár heimsfaraldurs með öllum sínum takmörkunum og áskorunum ætti öllum að vera ljóst hversu mikilvæg framlínustörf í verslun og þjónustu eru. Það er varla hægt að gera sér í hugarlund hvernig staðan hefði verið ef almenningur hefði ekki haft nær óheftan aðgang að nauðsynjavöru og annarri þjónustu.

Starfsfólk í verslun og þjónustu vann þrekvirki við afar erfiðar aðstæður sem einkenndust ekki bara af krefjandi og síbreytilegum sóttvörnum og takmörkunum heldur jókst álag gríðarlega vegna aukningar í sölu sem á sér vart fordæmi. Sem aftur skilaði versluninni metafkomu og arðsemi.

Notum tækifærið næst þegar við förum út í búð og þökkum fólkinu okkar fyrir að standa vaktina fyrir okkur hin. Það er ekki sjálfgefið að svo sé.

Ég hvet svo verslunareigendur til að sýna þakklæti sitt í verki í komandi kjarasamningum og deila hinni miklu velgengni og arðsemi með fólkinu sem bjó hana til.

Frídagur verslunarfólks á sér langa og merkilega sögu en frídagur verslunarmanna var fyrst haldinn hátíðlegur fimmtudaginn 13. september 1894, skömmu eftir að tilkynnt var á félagsfundi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur að allir kaupmenn og verslunarstjórar stærri verslana í Reykjavík hefðu boðist til að gefa starfsmönnum sínum frídag til að þeir gætu skemmt sér.

Í dag þykir mörgum sjálfsagt að hafa opið í verslunum en á sama tíma njóta þessa frídags sem upprunalega var stofnað til fyrir verslunarfólk. Sem betur fer virða flestir stjórnendur verslana þennan mikilvæga frídag fyrir sitt fólk og hjálpa okkur við að halda á lofti þessari mikilvægu hefð og mikilvægu hvíld.

Frídagur verslunarmanna er stórhátíðardagur samkvæmt kjarasamningum VR. Á stórhátíðum er ekki vinnuskylda.

Göngum hægt um gleðinnar dyr, förum varlega og komum heil heim.