Í dag, 19.maí er alþjóðlegur dagur heimilislækna (World Family Doctor Day). Tilgangur dagsins er að vekja athygli á málefnum heimilislækna og mikilvægi þeirra.

Á undanförnum áratug hefur orðið mikil uppbygging í heilsugæslum á Íslandi. Heimilislæknar hafa orðið mikilvægur hlekkur í þverfaglegum teymum með hjúkrunarfræðingum, ljósmæðrum, sálfræðingum og öðru starfsfólki sem starfar í frumþjónustu heilsugæslunnar. Heilsugæslan hefur fest sig í sessi sem fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu, komum sem og öðrum samskiptum hefur fjölgað til muna og verkefnin vaxið í takt við það. Í könnunum hefur traust fólks til heilsugæslunnar aukist mjög undanfarin ár.

Þessi árangur endurspeglar hugsjónastarf þeirra aðila sem komið hafa að uppbyggingu heilsugæslunnar hér á landi en í raun eru ekki nema örfáir áratugir síðan heilsugæslustöðvar komu fram í núverandi mynd.

Við þá uppbyggingu heilsugæslunnar var hugmyndafræði heimilislækninga höfð að leiðarljósi. Þar er samfella í þjónustu eitt af grunnstefunum og áhersla lögð á að hver aðili eigi sinn heimilislækni sem fylgir honum eftir til lengri tíma. Þannig skapist traust samband einstaklings og læknis sem þekkir hann vel, ekki bara helstu einkenni ákveðinna sjúkdóma heldur heilsufarssöguna í heild sem og félagslegt umhverfi og áhrifaþætti.

Rannsóknir hafa endurtekið sýnt að slík samfella í þjónustu eykur lífslíkur einstaklinga, dregur úr þörf á bráðaþjónustu og sjúkrahúsinnlögnum og er á sama tíma hagkvæmari fyrir heilbrigðiskerfið.

Þá hefur verið sýnt fram á að heilbrigðiskerfi sem reka sterka heilsugæslu koma best út bæði hvað varðar lýðheilsu og hagkvæmni í rekstri.

Því miður hefur aukin aðsókn í heilsugæsluna og aukinn fjöldi verkefna ákveðnar skuggahliðar. Fjármögnun grunnþjónustu heilsugæslunnar hefur setið á hakanum undanfarin ár og engan veginn fylgt eftir grunnkostnaði. Því stendur heilsugæslan höllum fæti rekstrarlega séð.

Þá hefur aukin aðsókn einnig lengt biðtíma eftir bókuðum læknaviðtölum þó reynt hafi verið að auka aðgengi í staðinn með bættri bráðaþjónustu á opnunartíma heilsugæslustöðva.

Loks er fjöldi starfandi heimilislækna langt undir viðmiði og því hefur álag á hvern lækni aukist til muna. Nýleg rannsókn meðal heimilislækna sýndi að rúmur þriðjungur starfandi lækna í heilsugæslu upplifðu einkenni kulnunar.

Því er mikilvægt að nota tækifærið á degi heimilislæknisins til að vekja athygli á mikilvægi þess að hlúa vel að grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins. Með hækkandi aldri þjóðarinnar og aukningu á fjölveikum einstaklingum eykst þörfin á þverfaglegum teymum með heildræna aðkomu að heilsu skjólstæðinga sinna – sem og sérhæfðra aðila sem geta nálgast heilsu einstaklinga með persónumiðuðum hætti. Þar gegnir heimilislæknirinn lykilhlutverki.

Rannsóknir hafa sýnt að langtímaeftirfylgd heimilislæknis sem þekkir þig vel bætir lífslíkur. Hver er heimilislæknirinn þinn?

Höfundur er formaður Félags íslenskra heimilislækna.