Höfuðborgin er í sífelldri mótun og nú eru skipulagslegar breytingar framundan með tilkomu borgarlínu og fleiri grænum skrefum. Athygli beinist sífellt meir að „Grænum gildum“; sjálfbærni, endurnýtingu, lýðheilsu og heilsueflingu. Hugtök eins og grænu skrefin, græn orka, græn byggð og meira að segja grænt bókhald fela í sér að skapa umhverfi sem stuðlar að náttúrulegri endurnýjun, umhverfisvænu viðhaldi og velsæld allra lífvera. Allar lífverur þurfa dagsbirtu til að þrífast og dafna. Til að skapa vistvænt og aðlaðandi borgarumhverfi þurfum við fyrst og fremst dagsbirtu.

Skipulag borgarinnar og okkar nánasta umhverfis getur haft mjög jákvæð áhrif á heilsu okkar og vellíðan en getur líka orkað þveröfugt ef dregið er um of úr náttúrulegum gæðum. Grundvallargæði náttúrunnar eru hreint loft, birta og vatn. Borgin með öllum sínum manngerðu kostum þarf að viðhalda þessum grundvallargæðum svo borgarbúum, af öllum stærðum og gerðum, líði vel í borginni. Með vönduðu skipulagi getum við lengt þann tíma sem við njótum dagsbirtu og útiveru á björtum og skjólsælum stöðum í borginni. Frumskilyrði góðs skipulags er að taka fullt mið af stöðu sólar og hnattlegu okkar og nýta sem best þá birtu sem okkur gefst. Skipulagið þarf að sjá til þess að dagsljósið nái niður í götur borgarinnar og inn í húsin okkar.

Íslenska sumarið er tími dagsbirtunnar og við viljum njóta hennar sem lengst fram eftir kvöldi. Opin svæði í miðborginni fyllast lífi og við teygum sólarljósið einnig í húsagörðum og á veröndum. Já, við sjúgum til okkar sólarljósið á meðan þess er kostur eftir langa og dimma vetrarmánuði. Kannski er þetta ásköpuð sjálfsbjargarviðleitni til að endurnæra og endurstilla hormónakerfið og vítamínbúskapinn. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á stórkostleg áhrif dagsbirtu á heilastarfsemi og hormónavirkni sem svo hefur jákvæð áhrif á afköst og einbeitingu, dregur úr streitu, eflir ónæmiskerfið, eykur batahorfur og bætir svefn. Þegar við njótum dagsbirtu eftir langan vetur fyllumst við vellíðan og aukinni lífsorku og dansandi geislar sólarinnar verma og gleðja.

Sjáum fyrir okkur sólríkan sumardag. Sólin skín á tréin fyrir utan og okkur langar út. Við búum í borg sem er græn af því að birtan nær niður í göturýmin, smágerður gróður teygir sig á móti geislunum og fuglar tylla sér á trjágreinar. Við setjumst út í skjóli húsveggja, látum sólina ylja okkur og virðum fyrir okkur iðandi mannlífið. Mannfjöldinn færist sólarmegin á götuna og óðar erum við farin að taka hina og þessa tali og dásama veðurblíðuna. Í slíkri borg er gott að búa. Svona staði eigum við í Reykjavík en því miður hefur ekki nægjanlega verið tekið tillit til stöðu sólar á okkar breiddargráðu í mótun margra nýbyggðra svæða og á það bæði við í miðborginni og í öðrum hverfum. Háar byggingar kasta löngum skuggum niður í göturýmin og dagsbirta nær ekki inn í neðri hæðir húsa. Göturnar verða án gróðurs og mannlífið færist á aðra og bjartari staði.

Höfundur kynnti á Hönnunarmars, niðurstöður rannsóknar á skuggavarpi á tveimur mögulegum torgsvæðum í miðborginni, annarsvegar í eldri byggð og hins vegar í nýbyggðu umhverfi. Þetta eru gatnamót Laugarvegar og Vatnsstigs borin saman við gatnamót Kolagötu og Reykjastrætis á Hafnartorgi. Bæði þessi svæði eru rýmislega þannig mótuð að þau eru mjög vel fallin til torgmyndunar. Stefna gatnanna er nánast sú sama sem gerir möguleg birtuskilyrði sambærileg. Hornið á Kolagötu og Reykjastræti gæti því notið sólar til jafns við Laugaveg/Vatnsstíg. Rannsókn okkar sýnir að svo er alls ekki. Skipulag svæðisins kemur í veg fyrir að það geti orðið. Byggingar við Kolagötu eru tvöfalt hærri en byggingar við Laugaveg en á sama tíma er Kolagata 2,5 metrum mjórri en Laugavegur. Rannsóknin fólst í því að meta skuggavarp á báðum stöðum og bera saman umfang þess á mismunandi tímum dags við sumarsólstöður og við jafndægur að vori og hausti. Einnig voru gerðir útreikningar á dagsbirtumagni innanhúss á neðstu hæðum húsa á sömu tímum við bæði gatnamótin. Rannsóknin sýnir skýrt að langir skuggar að vori og hausti takmarka mjög dagsbirtu bæði á Laugavegi og í Kolagötu. Sólargeislar ná aðeins inn Reykjastræti úr suðri í um tvær klst. á hádegi við jafndægur. Við Laugaveg eru lágreist hús sunnanmegin við enda Vatnsstígs og opna fyrir geislum sólar á norðurhlið Laugavegar en þó um takmarkaðan tíma dags. Það sem gerir helsta muninn á þessum tveimur svæðum að vori og hausti er að þó skuggasælt sé í göturýminu þá ná sólargeislar inn í neðstu hæðir norðurhliðar Laugavegar en norðanmegin Kolagötu nær skuggi vel upp á þrjár hæðir húsa og er því mjög takmörkuð dagsbirta innanhúss í þeim húsum.

Mjög áhugaverð niðurstaða af rannsókninni við sumarsólstöður 21. júní sýnir mismunandi gæði þessara tveggja staða sem möguleg torgsvæði. Vegna hæðar húsa og takmarkaðrar breiddar Kolagötu er sólarljós í Kolagötu einungis að morgni um hásumar. Strax á hádegi hefur skuggi lagst yfir allt göturýmið og upp húsveggi fyrstu hæðar. Hádegissólin nær inn Reykjastræti en strax kl. 13 er skuggi farinn að teygja sig þar inn. Skugginn lengist eftir því sem líður á daginn og um kl. 16 í lok júlí eru bæði göturými Reykjastrætis og Kolagötu í skugga.

Það er ekki freistandi að dvelja lengi á skuggasvæði í norðanátt. Það er of kalt á Íslandi til þess. Við þurfum sól og skjól. Við þurfum að móta borgarrýmin þannig að við getum notið sólarinnar þessa mánuði sem hún nær að verma okkur stóran hluta dagsins. Með skipulagi borgarinnar er þess vegna nauðsynlegt að opna fyrir birtuflæði frá suðri og suðvestri.

Á sólríkum sumardegi á mótum Laugavegar og Vatnsstígs gæti torg lifnað við, þar sem við tyllum okkur á lítinn Parísarstól innan um blómguð sumarblóm og fuglasöng, spjöllum og horfum á sólageislana glampa í hvítvínsglasinu. Við sumarsólstöður á Laugavegi/Vatnsstíg vermir sólin göturýmið frá snemmmorgni fram á kvöld. Einmitt á þessum stað Laugavegar eru lágreist hús sunnan götunnar sem tryggja að sólargeislar ná að skína yfir mænisþökin og niður í göturýmið. Enn frekara tilefni til torgmyndunar er á þessu svæði þar sem hús nr. 32 er dregið til baka á lóð og myndar með því aukið athafnarrými og gefur enn stærra dagsbirtusvæði á götunni.

Áhrif dagsbirtunnar á þessum tveimur svæðum eru mismunandi og gefa þeim því ólíka möguleika sem borgarrými. Möguleikar á dagsbirtu í göturými fer að öllu leyti eftir hlutfalli milli hæðar húsa og breiddar göturýmis. Gatnamót Kolagötu og Reykjastrætis mun að öllum líkindum verða gegnumstreymistorg þar sem fólk mætist á ferð sinni milli staða en dvelur ekki. Laugavegur við Vatnsstíg gæti aftur á móti skartað fjölbreyttu lífi sem dvalarstaður frá vori fram á haustdaga.

Hönnun og skipulag hins byggða umhverfis er grundvallarþáttur í nýtingarmöguleikum dagsbirtunnar. Takmarkað sólarljós gefur ekki tilefni til dvalarsvæða né nærandi gróðurs. Skuggsæl göngugata er ekki aðlaðandi og ósjálfrátt hröðum við ferð okkar eftir henni. Göngugata með leikandi sólargeislum léttir okkur lundina og við leitum að tækifæri til að dvelja um stund þar sem borgin lifnar við. Tímamótin nú í borgarskipulagi snúast ekki bara um borgarlínu. Þau snúast um að gefa mannfólkinu forgang umfram bílinn og búa til heilsusamlega og lifandi borg þar sem fólk nýtur þess að ferðast um og dvelja í sólríkum, hlýlegum borgarrýmum með mismunandi þjónustu og afþreyingarmöguleika. Miðborgin er í endurnýjun og byggðakjarnar eiga eftir að þéttast við nýjar stöðvar borgarlínu. Það er ekki nóg að taka bíla af götunni til að skapa göngugötu heldur þarf sól og yl til að líf þrífist í henni. Göngugata með góðri dagsbirtu getur orðið leiksvæði, veitingastaður, gróðurlundur, skólastofa eða hvað sem okkur dettur í hug. Göngugata með takmarkaðri dagsbirtu verður aldrei annað en umferðaræð. Skapa þarf borgarrými sem taka mið af lágri stöðu sólar og halda hlutfalli milli hæðar húsa og göturýma þannig að dagsbirtu njóti í göturýminu og sólargeislar leiki um innrými allt niður á fyrstu hæð húsa.

Dagsbirta þarf að vera sett til grundvallar góðu skipulagi og mannlífi í borg. Dagsbirta í göturýmum og dagsbirta inni í hýbýlum er ein af frumþörfum borgarbúans. Dagsbirtan er dýrmæt fyrir heilsu okkar og vellíðan og hún er ókeypis. Veitum dagsbirtunni athygli, fyllum ný og gömul rými borgarinnar af lífi þar sem sólargeislar ná að ylja okkur og gleðja með síbreyilegum litum sínum, glampa og endurkasti. Með geislum sólar og nægri dagsbirtu getum við á norðuslóðum skapað græna borg sem er heilsusamleg, lifandi og mannvæn.