Árið er ríflega hálfnað og óhætt að segja að það hafi verið viðburðaríkt. Óþarft er að rekja þau ósköp öll um veðurham og óáran. En nú er sumar og þá gleymist margt. Íslensk sumur eru óviðjafnanleg og þegar veður er upp á sitt besta, eins og verið hefur undanfarið, gleðjast gumar og leiðindi og þras hverfa og gufa upp eins og dögg á lyngi.

Á ferð um landið leynir sér ekki að erlendir ferðamenn eru færri en undanfarin sumur. Staðir þar sem ekki var þverfótað fyrir ferðafólki af fjölbreyttu þjóðerni eru nú fáfarnir og augljóst að innviðir, sem ætlað var að anna mun meiri aðsókn, eru vannýttir. Við allra vinsælustu náttúruperlur eru erlendir ferðamenn á stangli. Síld vorra daga vandfundin um þessar mundir. Hún kom og hún fór, eins og forðum.

Í anda augnabliksins fögnum við því að hafa svigrúm til að njóta íslenskrar náttúru. Óviðjafnanlegri, sem við sumpart höfum gleymt. Undir niðri er vissan um að afleiðingar horfins straums erlendra ferðamanna, bæði á menn og land, eru víðtækar og áhrifin geta orðið langvinn. Af hvaða tekjum taka ferðaþjónustufyrirtækin afborganir og vexti af reisulegri uppbyggingu sem nú aflar takmarkaðra tekna?

Þetta horfir þó til betri vegar – ferðamannaflaumurinn utan frá eykst skref frá skrefi og smám saman verður þetta harðræði að baki, þótt engum sé fullkomlega rótt. Að ekki sé nú minnst á nýjustu tíðindi af óværunni með auknum takmörkunum.

Í bjartri sumarnóttinni eru samt engar alvöru áhyggjur. Allt verður gott á ný. Puntstrá í munni og stöku súra, ilmur af töðu, fuglakvak og suðandi flugur.

En það er ástæða til að hafa á sér vara. Fjöldi þeirra sem misstu vinnu sína í miðju kófinu munu ekki fá störf sín aftur og fara á berstrípaðar atvinnuleysisbætur þegar hausta fer, eða jafnvel fyrr. Greiða þarf af húsnæðislánum og sjá sér og sínum farborða. Nauðsynjar ganga fyrir öðru. Þetta fólk mun ekki kaupa gistingu eða viðurgjörning.

Í algleymi sumars má þetta ekki gleymast. Atvinnuleysisbætur duga vart nema til sárustu nauðþurfta. Umsetningu í íslensku efnahagslífi verður ekki haldið uppi af þessu fólki.

Að ferðaþjónustunni slepptri hefur atvinnuuppbygging utan höfuðborgarsvæðisins á undanförnum árum verið einstaklega óuppbyggileg. Þau tvö kísilver sem hér hafa reynt að hasla sér völl hafa reynst tálsýn, svo dæmi sé tekið. Í tilviki PCC á Bakka við Húsavík var sendingin hefndargjöf. Gamaldags kjördæmapot bætti ekki úr skák og sérkennilegt að forystumaður í grænni hreyfingu skyldi gangast fyrir að leggja á kjósendur slíkar hörmungar. Og óvíst er hvort starfsemi Sameinaðs silíkons á Suðurnesjum hefjist á ný, enda sá rekstur byggður á blekkingarleik frá upphafi.

En frá náttúrunnar hendi er landið gjöfult og hér er blómlegt. Þar er ekki um að villast. Það er því engin ástæða til að örvænta.

Okkur leggst eitthvað til.