Í vikunni gerðust þau tíma­mót sem gjarnan eru eftir­tektar­verð í lífi stjórn­mála­fólks, að for­seti Banda­ríkjanna, Joe Biden, hefur verið 100 daga í em­bætti. Áður fyrr var jafnan talað um það, að fyrstu 100 dagarnir í em­bætti væru ein­hvers konar brúð­kaups­ferð. Enska hug­takið „hon­eymoon“ nær þeirri pælingu reyndar að­eins betur, í ör­lítilli mót­sögn við þau vísu­orð Einars Bene­dikts­sonar að til séu á ís­lensku orð yfir allt sem er hugsað á jörðu, en hvað um það. Í þessa 100 daga eiga ný­kjörnir leið­togar að njóta vafans og fá næði frá fjöl­miðlum og öðrum gagn­rýnis­öflum til að skipu­leggja sig. Að þeim dögum liðnum á fólk að vera til­búið í slaginn, og koma endur­nært og hresst inn í þjóð­fé­lagserilinn, með ráð undir rifi hverju og plön við flestu.

Þessi nálgun hefur almennt látið undan síga. Eins og stjórnmálin eru orðin, og út af því hvað hraði umræðunnar hefur færst mjög í vöxt — svo ekki sé talað um krísurnar sem jafnan dynja á þjóðfélögunum — er enginn tími fyrir einhverja 100 daga afslöppun í upphafi valdatíðar. Allt þarf að ganga upp frá fyrstu mínútu, sérstaklega þegar tekið er við taumunum í miðjum heimsfaraldri og eftir að stjörnuvitlaus forveri hefur hvatt til uppreisnar með lygum og þvættingi.

Margir héldu að Biden væri afskaplega óáhugavert gamalmenni sem ætti ekkert erindi í þennan valdastól. Þess gætti að gert væri grín að stami hans og mismælum. Að fylgjast með upphafsdögum þessa reynslubolta, og hversu magnaðir þeir dagar hafa verið, hefur af þessum sökum verið einstaklega endurnærandi, umhugsunarvert og frískandi. Joe Biden hefur sýnt heimsbyggðinni að það er hægt að taka réttar ákvarðanir í pólitík, að pólitík skiptir óendanlega miklu máli og það eru til pólitíkusar sem eru ekki í stjórnmálum einungis til að sigra í leðjuslögum og gera fólk þunglynt. Auðvitað er allt umdeilanlegt. Sumir vilja fara aðrar leiðir, gefa meira í eða vilja hnika til áherslum. Það er eðlilegt. Stóru fréttirnar eru engu að síður glimrandi. Tiltekið tíst á Twitter var lýsandi við upphaf forsetatíðar Bidens, frá evrópskum loftslagsvísindamanni til bandarískra kollega. Það var einfaldlega svona: „Veriði velkomin aftur“. Það var eins og öll vísindaakademía Bandaríkjanna, eins mikilvæg og hún er heimsbyggðinni allri, hefði verið endurheimt úr tímaferðalagi til miðalda, þar sem hún húkti í dýflissum með skinnpjötlu á höfði. Nú var hún aftur á meðal okkar. Á tímum þegar veröldin þarf á þekkingu og vísindum að halda, sem aldrei fyrr, er ekki nokkur leið að vanmeta þýðingu þess að fólk fyrir vestan fái loksins að sýna hvað í því býr, taka þátt í að leysa vandamál heimsins, án þess að forseti þjóðarinnar brjálist í hástöfum. Það skiptir máli hver stjórnar.

Um Biden hefur verið sagt, að hann sé þannig gerður að hann líti aldrei svo á að hann sé klárasta manneskjan í herberginu. Þetta er mikilvægt. Margir hafa þá trú að það sé mjög áríðandi að vera klárastur í öllum herbergjum. Biden hins vegar ku hlusta á aðra, sem eru klárari en hann. Á hitt hefur einnig verið bent, að Biden er ekki mikill kreddukarl. Hann er þess vegna reiðubúinn að hlýða á lausnir, án þess að fyllast bræði yfir því að lausnin kunni möguleika ekki endilega að samrýmast einhvers konar fyrir fram mótuðu hugtakakerfi hans. Hann er ekki í keppni í því að hafa rétt fyrir sér, eins og sumir segja að háð hafi vinstri mönnum á Íslandi um langt skeið, heldur virðist Biden raunverulega keppa að árangri, fyrir samfélagið. Persónuleg áföll hans og bakgrunnur gerir það að verkum að hann virðist einlæglega hafa áhuga á því að bæta líf fólks og hjálpa því upp úr efnahagslegum ömurleika. Ákvarðanirnar á fyrstu 100 dögunum eru sem vel samin tónlist: Bandaríkin ætla að taka á loftslagsmálunum, það á að byggja upp græna innviði, byggja íbúðir handa fólki, skattleggja hina ofurríku og nú síðast, í vikunni, lýsti Bandaríkjastjórn því yfir að hún styddi hugmyndir um að framleiðsla á bóluefni við Covid-19 yrði ekki bundin einkaleyfi. Það yrði stórbrotið fyrir fátækustu ríki heims.

Breytt mynd blasir við. Kærkomin skynsemisbylgja fer nú um veröldina. Biden skorar á hólm sjálfa ofurkredduna sem grasserað hefur í Bandaríkjunum allt frá Ronald Reagan með tilheyrandi smitáhrifum til annarra þjóða, um að ríkið sé hið illa. Það er fásinna. Sé ríkinu, í lýðræðislegu umboði, beitt rétt er ríkið grundvallarkraftur sem getur umbreytt þjóðfélögum til meiri skynsemi, réttlætis, frumkvæðis og farsældar.

Megi hann stama, mismæla sig og hrasa í flugvélastigum sem lengst þessi maður. Af kláru fólki á heimsbyggðin blessunarlega aragrúa. Til að leiða þarf gott fólk.