Einn af svokölluðum áhrifavöldum samfélagsmiðlanna sagði á dögunum í Kastljóssviðtali, að það væru ekki „mannréttindi að fá að vera tónlistarmaður“ heldur væru það forréttindi. Ummælin lét hún falla í tilefni af því að tónlistarmaðurinn Bob Dylan var borinn sökum um kynferðisbrot sem á að hafa átt sér stað fyrir 60 árum síðan. Taldi áhrifavaldurinn réttast að taka tónlist Dylans úr spilun á útvarpsstöðvum og gaf í skyn að eðlilegt væri að verk annarra listamanna, sem bornir hafa verið sökum um óviðeigandi hegðun, yrðu fjarlægð úr ljósvakamiðlum. Hún er svo sem ekki ein um þessa skoðun.

Ef horft er fram hjá misskilningi áhrifavaldsins á mannréttindahugtakinu (það eru nefnilega mannréttindi að fá að starfa við það sem maður vill) og því mikilvæga sjónarmiði að einstaklingur getur ekki talist sekur við það eitt að bornar séu á hann sakir, þá eru fleiri hliðar á málinu. Mikilvægt er að þolendum ofbeldis sé veittur stuðningur en útskúfun meintra gerenda snertir fleiri en þá eina. Í fjölda tilvika eiga tugir einstaklinga stóran þátt í sköpun listaverka. Hinn brotlegi listamaður á sjaldnast einn heiðurinn. Hljómsveitarmeðlimir, textahöfundar, listflytjendur, leikstjórar, hljóðfæraleikarar og aðrir rétthafar listaverka hafa allir hagsmuni af því að tónverk verði flutt og kvikmyndir áfram sýndar. Þetta fólk hefur ekkert sér til saka unnið. Óskarsverðlaunahafinn Hildur Guðnadóttir á, svo dæmi sé tekið, ekki að þurfa að þola það að kvikmyndin um Jókerinn verði afmáð úr kvikmyndasögunni vegna þess eins að aðalleikari myndarinnar braut af sér.

Tilfinningaríkar samfélagsumræður kalla á yfirvegaðar aðgerðir og hinn sívaxandi slaufunarkúltúr er ólíklega rétta leiðin áfram.