Í dag, 8. september, er alþjóðlegur dagur sjúkraþjálfunar. Af því tilefni er sjónum heimsins beint að hlutverki sjúkraþjálfara á heimsvísu í þeim nýju áskorunum sem við stöndum frammi fyrir af völdum COVID-19 heimsfaraldursins. Sjúkraþjálfarar gegna lykilhlutvekri í endurhæfingu fólks eftir COVID-19 sýkingar og gera fólki kleift að snúa aftur til síns fyrra lífs.

Eftirköst COVID-19 sjúkdómsins eru margskonar og enn er verið að kortleggja þau. Flestir sjúklingar sem hafa smitast af sjúkdómnum og eru enn að glíma við eftirköstin af honum eiga það sameiginlegt að fást við óeðlilega þreytu, orkuleysi og almennan slappleika., skerðingu á úthaldi og styrk og mörg hver mæðast í hvíld. Mörg þurfa að nota gönguhjálpartæki við að komast um og upplifa mikinn dagamun og fara auðveldlega yfir eigin mörk og upplifa bakslag, þurfa jafnvel að liggja fyrir í einhverja daga. Flest eiga það sameiginlegt að glíma við andlega erfiðleika, þunglyndi og kvíða en smitskömm er einnig áberandi. Þessum sjúklingahópi finnst þau mæta litlum skilningi varðandi ástand sitt.

Sjúkraþjálfarar, m.a á Reykjalundi, hafa komið að endurhæfingu fólks eftir veikindi af völdum COVID-19. Endurhæfingin þar hvílir á styrkum stoðum lungnaendurhæfingar og þeirrar reynslu sem fagfólk býr yfir. Lykilatriði í endurhæfingu þessa hóps er að fara nógu rólega af stað og halda mæði í lágmarki við þjálfun. Sjúkraþjálfarar fræða um hvaða álag er heppilegast, fylgjast með lífsmörkum og bregðast við ef þess þarf. Þjálfuninn er stigvaxandi eftir getu einstaklingsins og ganga, jafnvægi og færni í athöfnum daglegs lífs æfð. Auk þess þurfa margir sérhæfða öndunar og lungna þjálfun sem sjúkraþjálfarar hafa sérþekkingu í. Stór hluti endurhæfingar eftir Covid veikindi er stuðningur og andleg vinna, og því mikilvægt að þeir sem eru verst settir hafi aðgang að þverfaglegri endurhæfingu.

Sjúkraþjálfarar hafa sérfræðiþekkingu í þjálfun mismunandi sjúklingahópa. Brýnt er að tryggja aðgengi þeirra sem veikst hafa af Covid-19 að endurhæfingu þannig að heilsu sé náð og öryggi og trú fók á eigin getu eflist undir tryggri leiðsögn reyndra fagmanna.

Höfundur situr í stjórn Félags sjúkraþjálfara