Áður en ég vissi af var ég komin í faðminn á konunni. Hún hafði teygt út handleggina og í einfeldni minni hélt ég að hún væri að bjóða mér faðmlag. Þegar ég greip um axlirnar á konunni skynjaði ég að hún spenntist upp og steig til hliðar. Í stað þess að fá innilegt faðmlag vorum við komnar í einskonar glímu, COVID-glímu. Mér leið strax kjánalega og sagði við sjálfa mig: „mikið geturðu verið taktlaus, svona gerir maður ekki í ljósi aðstæðna.” En það var of seint því snerting hafði átti sér stað. Hið snarasta bryddaði ég upp á umræðuefni til að taka athyglina af hinu vandræðalega „faðmlagi“. Eftir þriggja mánaða stofufangelsi í Kaliforníu þyrsti mig í félagsleg tengsl. Þau eru ekki auðsótt á þessum tímum.

Sýklar á fyrsta farrými

Þó margt sé komið í eðlilegt horf hér á landi þá getur það að heilsast verið snúið. Snerting hefur mikið félagslegt gildi. Meira að segja dýrin nota snertingu til að tengjast hvert öðru. Í okkar samfélagi hefur tíðkast að heilsast með handabandi. Sagt er að það sé ekki einungis kurteisi heldur veki það traust og styrki félagsleg tengsl. Juliana Schroeder við Berkeley háskóla hefur rannsakað handabandið og segir menn ná meiri árangri í viðskiptum takist þeir í hendur: „Það breytir ekki einungis hvernig þú skynjar hinn aðilann, heldur hvernig þú lítur á aðstæðurnar. Þú segir við sjálfan þig: Nú erum við að vinna saman en ekki gegn hvor öðrum.”

Kostir og gallar

Handabandið hefur kosti og galla. Þar sem hendur eru notaðar til að bora í nef, skeina rass og plokka leifar úr tönnum, þá ferjum við sýkla á fyrsta farrými til næsta manns. Kannanir sýna að margir þvo hendur illa eða alls ekki eftir salernisferðir. Rannsókn frá 2011 sýndi að handþvottur með sápu dregur mikið úr saurbakteríum en tryggir samt ekki að þær hverfi með öllu. Síðustu ár hafa menn þó bent á að með handabandi fáum við einnig nytsamlegar bakteríur sem verja okkur gegn skaðlegum sýklum.

Hvaðan kemur handabandið?

Móðir mín kenndi mér að heilsa. Því þéttingsfastara og ákveðnara handaband, því meira mark er tekið á manni. Og ég kenndi sonum mínum slíkt hið sama. Út frá handabandi ályktum við gjarnan um persónuleika þess sem snertir lófa okkar. En hvaðan kemur sá vani að heilsast með því grípa um hönd annarra? Sú kenning sem hefur líklega notið mestrar hylli er að handaband sé tákn friðar. Með því að rétta fram höndina sýndirðu að þú bærir ekki vopn og þegar þú hristir höndina hressilega vissir þú að handabandsfélaginn hefði ekkert að fela í erminni. Sú iðja að takast í hendur sést á ævafornum grafreitum og steinhellum, m.a. á myndum af guðum að gera með sér samning. Það teygir sig meira að segja aftur til Ódysseifskviðu Hómers frá um 750 f. Kr.

Nýjar leiðir

Íslendingar hafa þó nýtt sér aðrar leiðir til að heilsast. Í sögubókum er sagt frá því að menn hafir hér áður fyrr lyft hatti eða hneigt sig. Eitt er ljóst að það er eðlilegt að við setjum handabandið í hlé, en það væri hjálplegt ef við kæmum okkur saman um hátt til að heilsast án handabands. Hvort heldur með því að horfast í augu, brosa og kinka kolli, eða reka út tunguna eins og tíðkast í Tíbet. Fyrir mér má handabandið hverfa, en án faðmlagsins mun tilveran tapa hlýju.