Kórónakreppan hefur reynt á þolrif norrænnar samvinnu með lokun landamæra sem valdið hefur óþægindum, einkum því fólki sem býr og starfar á landamærasvæðum. Samstarfið hefði óneitanlega mátt vera betra þegar neyðarástand myndaðist rétt eins og við svipaðar aðstæður víðar um heim.

Það er auðvelt að vera vitur eftir á og segja hvernig löndin hefðu átt að vera samhentari í viðbrögðum sínum. En þá má ekki gleyma því að upp voru komnar alveg nýjar aðstæður sem kröfðust skjótra viðbragða án þess að nauðsynleg þekking og reynsla væri alltaf fyrir hendi.

Sem fulltrúar jafnaðarmanna í Norðurlandaráði erum við engu að síður sannfærð um að framtíðarhorfur í norrænu samstarfi og aldalöngum samskiptum þjóðanna eru bjartar svo framarlega sem við lærum af reynslunni áður en nýjar kreppur steðja að.

Margt bendir til þess að sú sé raunin. Við höfum lært mikið af COVID-19 kreppunni, ekki síst að við getum hist rafrænt. Fundir í Norðurlandaráði eru haldnir samkvæmt áætlun þótt í netheimum sé og samstarfsráðherrar landanna ræðast við oft í viku. Ekki síst til að leysa vandræði þeirra sem ferðast á milli landa vegna vinnu og finna fyrir stjórnsýsluhindrunum sem upp koma í kreppunni. Við horfum einnig til framtíðar þegar faraldrinum lýkur, því þá hefur ráðherranefndin mótað stefnu og sameiginlega framkvæmdaáætlun um viðbrögð við nýjum kreppum sem byggist á fenginni reynslu þjóðanna.

Í Norðurlandaráði starfa saman Norðurlöndin fimm auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands. Saman vinnum við að því að gott sé að búa, lifa og starfa á Norðurlöndum. Margt sem okkur þótti sjálfsagt áður en faraldurinn braust út, til dæmis að geta unnið hvar sem er á Norðurlöndum, er samstarfi í Norðurlandaráði að þakka. Enn sem fyrr er eitt helsta verkefni okkar að auðvelda fólki að ferðast og starfa yfir landamæri, sú vinna liggur ekki niðri. Meðal mála á borði ráðherranefndarinnar má nefna útgáfu rafrænna skilríkja sem gildi alls staðar á Norðurlöndum, gagnkvæma viðurkenningu starfsréttinda og samræmingu byggingarreglugerðar á Norðurlöndum svo fátt eitt sé nefnt.

Í fyrra samþykktu samstarfsráðherrarnir nýja framtíðarsýn um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030. Þetta er markvisst langtíma ferli þar sem öll löndin taka þátt og leggja sitt af mörkum. Við jafnaðarmenn teljum ekki að COVID-19 muni skyggja á þá framtíðarsýn. Þvert á móti að við munum átta okkur betur á því að norrænt samstarf skiptir sköpum fyrir efnahagslegan bata í löndunum og að við getum tekist á við nýjar kreppur hvort sem þær verða af völdum heimsfaraldurs eða loftslagsógnar. En það er mikilvægt að samstarfið dragi lærdóm af kreppunni og nýti haustið til að finna nýtt verklag til að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á hreyfanleika fólks yfir landamærin.

Við vitum ekki hvenær kóróna­kreppunni lýkur. Forsendur fólks til að hittast innan Norðurlanda breytast vikulega. Núverandi aðstæður eru þolraun fyrir okkur öll. Við jafnaðarmenn í Norðurlandaráði höldum áfram að beita okkur fyrir afnámi stjórnsýsluhindrana, einnig eftir að faraldri lýkur. Markmið okkar er að Norðurlöndin verði áfram leiðandi á sviði velferðar, loftslagsmála og jafnaðar í þeirri efnahagslægð sem fylgir í kjölfar COVID-19.


Fyrir hönd jafnaðarmanna í Norðurlandaráði.