Það er ætíð áhyggjuefni þegar faraldur áður óþekktrar veiru kemur upp. Nýja veiran nefnist SARS-CoV-2 en sjúkdómurinn Covid-19. Enn er margt á huldu en stöðugt bætist við þekkinguna. Vitað er að meirihluti þeirra sem veikjast, eða 80 prósent, fá væg einkenni, 20 prósent verða veik og 5-10 prósent veikjast alvarlega.

Nú þegar veiran er komin til landsins er mikilvægt að hefta útbreiðslu hennar. Unnið er að rakningu smitleiða, þ.e. að finna þá sem hafa umgengist veikan einstakling og hugsanlega orðið útsettir fyrir veirunni. Með því er átt við að hafa verið innan við 1-2 metra frá þegar hinn veiki hóstaði eða hnerraði, snert hann, dvalið í sama húsnæði eða verið nálægt í sama farartæki. Mat á þessu er gert í samvinnu almannavarna, sóttvarnalæknis og smitsjúkdómalækna Landspítala. Þeir sem hafa verið útsettir eða dvalið á skilgreindu hááhættusvæði (upplýsingar í síma 1700) þurfa að gangast undir sóttkví og þeir sem greinast með veiruna þurfa einangrun.

Aðal smitleiðir veirunnar er snertismit og dropasmit en veiran greinist bæði í öndunarvegi og saur. Því er mikilvægt að huga afar vel að hreinlæti, þvo hendur reglulega með sápu og nota handspritt. Hósta og hnerra í pappír sem strax er hent ef um kvefeinkenni er að ræða. Grímur nýtast best fyrir þá sem eru veikir og þegar heilbrigðisstarfsmenn eða viðbragðsaðilar sinna veikum eða þeim sem gætu verið smitaðir. Sýna skal aðgát í umgengni við snertifleti á fjölförnum stöðum, til dæmis krana, hurðarhúna, handrið, lyftuhnappa, snertiskjái og greiðsluposa. Þeir sem bera ábyrgð á þrifum þurfa að sinna þeim vel. Stjórnvöld hafa einsett sér að halda almenningi vel upplýstum um stöðu og framgang mála. Mikilvægt er að fylgjast með réttum og ábyrgum upplýsingum frá sóttvarnalækni og almannavörnum en þær eru birtar á vefnum landlaeknir.is.

Kæru landsmenn. Nú þurfum við öll að sýna yfirvegun; fylgjast með, sameinast um að fylgja fyrirmælum og hjálpast að til að sem best gangi að takast á við veiruna. Almannavarnir erum við öll.